Völd stjórnmálamanna

Hugsjónir stjórnmálamanna ( ef einhverjar eru ) virðast hafa tilhneygingu til að þynnast út og jafnvel hverfa þegar komið er í áhrifastöðu svo sem þingmennsku eða ráðherraembætti.

Þetta má glögglega sjá ef skoðaður er ferill stjórnmálamanna sem verið hafa í stjórnarandstöðu og komist til áhrifa og öfugt. Í andstöðu sinni eru menn opnir fyrir því að túlka hugsjónir sínar á allt annan hátt en þeir gera þegar þeir komast til valda og þurfa að fara taka ábyrgð á því hvað þeir segja eða gera.

Hvað veldur er ekki gott að segja en grunur minn er sá að innst í hugskoti flestra stjórnmálamanna sé aðalatriðið að ná völdum og halda þeim með öllum tiltækum ráðum, jafnvel þó það þýði að ganga þurfi á bak orða sinna. Almenningur er fljótur að gleyma eins og við vitum. Að menn þori eða vilji standa með hugsjónum sínum er liðin tíð og þá fer maður að velta fyrir sér hver tilgangurinn með stjórnmálunum er orðin.

Er hann sá að gera landi sínu og þjóð til góðs eða snýst hann um að komast í góða og þægilega innivinnu með öllum þeim bittlingum sem stjórnmálamenn sjálfir, í gegnum tíðina,  hafa komið á sér til handa ? Það er von menn spyrji.

En það er annar vinkill á þetta leikrit sem stjórnmálin eru sem maður veltir fyrir sér og hann er þessi:

Hver eru raunveruleg völd stjórnmálamanna á Íslandi þegar öllu er á botninn hvolft ?

Allir núverandi stjórnmálaflokkar hafa á stefnuskrá sinni að jafna lífskjör, standa vörð um og efla heilbrigðis og menntamál í landinu og í stuttu máli, gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hér sé samfélag þar sem allir geta lifað sáttir og hafi nóg til hnífs og skeiðar og þurfi ekki að líða skort í einu eða neinu. Vissulega vilja menn fara mismunandi leiðir að þessum markmiðum en þó er þetta það sem þeir allir boða. Þetta má allt sjá í stefnuskrám flokkanna og lesa í þeim bæklingum sem berast fyrir hverjar kosningar.

Hvernig hefur til tekist ?

Þeir flokkar sem teljast til hægri og vilja fara leið frelsis og athafna hafa með framferði sínu sett okkur svo kyrfilega á hausinn að frægt er orðið um heimsbyggð alla og flokkarnir til vinstri eru svo á góðri leið með að fullkomna glæpinn með aðgerðum sínum og eða aðgerðarleysi. Við bætist svo að græna hugsjónin gengur út á að engin verkefni eða framkvæmdir séu af hinu góða ef því tengjast útlendingar eða draumi þeirra um hreint og ósnert Ísland verði haggað.

Skýringin á þessari stöðu er að mínu viti ekki flókin eða langsótt.

Hugmyndafræðin hefur ekkert breyst þrátt fyrir breytt stjórnarmynstur. Það er þessvegna sem maður veltir fyrir sér raunverulegum völdum stjórnmálamanna.

Þessi hugmyndafræði sem allir flokkar á Íslandi virðast neyðast til að fylgja er í stuttu máli eftirfarandi og er í tvennu lagi:

A) Fjármagnseigendur, hvort heldur eru bankar eða einstaklingar mega ekki tapa fé. Það er náttúrulögmál sem ekki virðist hægt að yfirstíga frekar en gangur himintunglana. Nú er ég ekki að tala um aðila sem með forsjálni og dugnaði hafa verið að nurla saman til elliáranna heldur þá sem raunverulega ráða yfir fjármagninu. Trú stjórnvalda er sú að tapi þessir aðilar fé muni þau ósköp þýða að jörðin muni hætta að ganga braut sína, sólin hætta að skína og hér muni verða óbyggilegt um aldur og æfi. Engu máli skipti þó menn hafi tekið óverjandi áhættu í gróðavon sinni eða jafnvel brotið einhver lög í kapphlaupi sínu um aurana. Engu máli skiptir heldur hvort hér er um raunverulega peninga að ræða með verðmæti á bak við sig eða upphæðir sem skráðar eru með þykku bleki í bækur þessara höfðingja önnur en ákveðið er á virtum bókhaldsskrifstofum og fundin eru með endurbættum og þróuðum reikniskúnstum og eru í besta falli löglegar en óverjandi siðferðilega.

B) Almenningur skal borga og besta leiðin til þess er að sækja þessa aura gegnum skattakerfið. Skotheld aðferð sem lengi hefur verið stunduð með ágætum árangri víða um heim. Þetta skal gert á eins stuttum tíma og hægt er enda fellur fjármagnseigendum illa að vera aðskildir frá fé sínu of lengi. Ef það þýðir að almenningur njóti lakari lífskjara eða tapi beinlínis á því peningum eða eignum þá verður bara svo að vera að áliti stjórnmálamanna. Það þýðir allavega ekki annað en að fólk verður óánægt um tíma en síðan, eins og við vitum, er okkar háttur að setja bara undir okkur hausinn og halda áfram að streða. Þetta vita stjórnmálamenn.

Hvernig fellur þessi hugmyndafræði svo að loforðum stjórnmálamanna sem þeir kyrja svo fallega á mannamótum og þá helst rétt fyrir kosningar ?

Engan veginn að mínu viti og þó gefur maður sér að þeir sem gefi sig fram til starfa fyrir almenning ætli sér að standa við loforðin. Hverju á maður að trúa þegar þetta fólk kemur fram fyrir alþjóð og lofar öllu fögru ?

Efndirnar eru þannig að maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað ráði för þegar á hólminn er komið. Hvort láta stjórnmálamenn ráðast af ótta sínum við peningavaldið eða vilja sínum til að efna loforð sín.

Hvað á maður að halda þegar flokkar og stjórnmálamenn sem haldið hafa uppi ákveðnum málflutningi í þágu fólksins í landinu og vilja kenna sig við jöfnuð og mannréttindi ganga af trúnni nánast á einni nóttu og fara að ganga erinda aðila erlendra sem innlendra sem, að manni finnst, eiga ekkert inni hjá okkur og ættu með réttu að vera lokaðir bak við lás og slá eða í besta falli að hypja sig burt af landinu ( sem jú sumir hafa gert ) og hlífa okkur sem heima sitjum í súpunni við að líta þá augum.

Hver hefur raunverulega völdin á Íslandi ?

Maður bara spyr sig !


Fálkaorðan ( eða þakklæti þjóðar)

Eftir yfirreið mína um bloggið í dag þá fór ég einhverra hluta vegna að velta fyrir mér hvað ég þarf að afreka í lífinu til að öðlast þakklæti Íslensku þjóðarinnar og þá fá leyfi til að kalla mig: Handhafa hinnar íslensku Fálkaorðu.

Nú vil ég byrja á að gera smá játningu af því ég vil ekki vera með einhverja uppgerðar hæversku. Mér finnst gott að fá viðurkenningar og verðlaun. Mér finnst gott að hafa það á tilfinningunni að fólk meti mig og það sem ég geri. Ekki verra ef menn telja verk mín til afreka. Og hvað getur verið meiri viðurkenning en klapp á bakið frá samferðar og samtíðarmönnum sínum fyrir vel unnin störf, ég bara spyr ?

Til að komast að því hvað ég þarf að gera til að öðlast viðurkenningu fleiri en minna nánustu ( ömmu, krakkanna minna eða hundsins ) taldi ég liggja beinast við að fletta upp á vef forsetaembættisins og lesa mér til um Fálkaorðuna. Þar stendur í 1. grein svohljóðandi:

Orðunni má sæma innlenda einstaklinga eða erlenda fyrir vel unnin störf í þágu þjóðarinnar, einstakra þjóðfélagshópa eða landshluta, eða í þágu mikilvægra og góðra málefna á Íslandi eða á alþjóðavettvangi.

Í 4. grein stendur

Orðunefndin gerir tillögur til stórmeistarans um veitingu orðunnar.

Stórmeistari getur, er honum þykir hlýða, veitt orðuna án tillagna orðunefndar.

Þegar íslenskur ríkisborgari er sæmdur orðunni skal ávallt skýra opinberlega frá því hverjir sérstakir verðleikar hafa gert hann verðan sæmdarinnar.

Að auki getur hver sem er sent orðunefnd tillögu að orðuveitingu samkvæmt því sem stendur á síðunni

Ok. Hvað getur svona meðaljón eins og ég gert til að uppfylla þessi skilyrði ?

Næsta skref var þá að fara í yfirlit yfir orðuhafa síðustu ára ( 1996 til 2010 nánar tiltekið ) og sjá á þeirri upptalningu hvað menn ( og konur ) hefðu sér til ágætis unnið að þau ættu skilið þakklæti heillar þjóðar. Þar kom ýmislegt fróðlegt fram og þá er ég ekki að tala um einstaka barnaníðing sem þar þvælist óvart inn og krumpar stílinn á þessari annars virðulegu upptalningu fólks sem þjóðin sér ástæðu til að þakka sérstaklega.

Til dæmis komst ég að því að meðal þeirra sem hlotið hafa Hina íslensku Fálkaorðu eru meðal annarra íþróttamenn, myndlistamenn, prófessorar, stjórnarformenn, ráðherrar, biskupar ( jájá ég veit ) læknar, búfjárfræðingar, formenn ýmissa félagasamtaka, verslunarstjórar, skjalaverðir og svo mætti lengi telja. Ekki er síður forvitnilegt að sjá fyrir hvað öllu þessu fólki er þakkað. Það er til dæmis eftirtektarvert hve margir ráðherrar og fleiri opinberir embættismenn hafa verið ósínkir á tíma sinn í starfi og verið duglegir að mæta í vinnuna sína, landi og þjóð til heilla svo ekki sé minnst á alla íþrótta og listamennina sem hafa af óeigingirni neitað sér um venjulegt líf og daglaunavinnu til að geta borið hróður þjóðar sinnar sem víðast. Öðrum eru þökkuð störf á vettvangi félags og æskulýðsmála, varðveislu menningarverðmæta, bankastjórum fyrir bankastörf, kennurum kennslustörf, bændum fyrir bústörf og svo framvegis. Allt mikið öndvegisfólk og vel að þessari viðurkenningu komið. Það eru reyndar ekki margar húsmæður þarna eða þá verkafólk eða sjómenn, stöku skipstjóri reyndar en engir hásetar, netamenn hvað þá kokkar en það er sjálfsagt ekkert auðvelt að mæla framlag þessa fólks til þjóðarhags sérstaklega enda hefur það aldrei verið til siðs hér á landi að hampa því þó konur ali upp börn og þvoi bleyjur eða sjómenn leggi líf sitt og limi að veði ásamt fjarvistum frá fjölskyldum sínum. Það þarf klárlega eitthvað meira til að öðlast þakklæti þjóðarinnar.

Erlendum ríkisborgurum er einnig veitt þessi orða og má þeirra á meðal telja hershöfðingja, prótokollstjórar, húsmunaverði, hirðmeyjar, ríkismarskálka, gagnrýnendur, sálfræðinga, hagsýslustjórar ásamt miklu fleira af eðalbornu og háttsettu fólki sem of langt mál yrði upp að telja.

Sjálfur hef ég ýmislegt unnið bæði til sjós og lands, kann ýmislegt og veit margt en er ekki mjög góður í neinu og veit minnst af því sem ég þyrfti að vita.

Á ég einhvern möguleika á að komast í þennan fríða flokk sem með lífi sínu og eftirbreytni hefur skipað sér á bekk Íslands bestu sona og dætra ?

Tæplega. Eftir því sem ég les ofanritað oftar yfir verður mér æ ljósara að líkurnar á því eru hverfandi. Ég er og verð ekki erlendur hershöfðingi eða hirðmey, er ekki prestvígður svo ekki verð ég biskup og trúlega er ég búinn að missa af lestinni í pólitíkinni svo varla verð ég ráðherra héðan af.

Sennilega ætti ég að vera bara þakklátur fyrir að konan og krakkarnir vilja hafa mig á heimilinu og að einhver vill yfir höfuð hafa mig í vinnu og svona almennt reyna að komast í gegnum daginn án þess að verða mér og mínum til minnkunnar. 

Svo finnst ömmu og hundinum ég vera frábær.

 


Þakka þér fyrir Sigurður.

Mig langar í örfáum orðum að þakka Sigurði Einarsyni fyrir að gefa sér tíma frá önnum sínum erlendis til að koma að heiman frá sér til Íslands til að hjálpa Sérstökum Saksóknara að glöggva sig á nokkrum vafaatriðum sem alltof lengi hafa verið að vefjast fyrir mönnum hér á landi. Ekki það að þetta hafi nokkuð með Sigurð sjálfan að gera enda segist hann vera saklaus af öllu sem heitir saknæmt athæfi. Sigurði mun ekki hafa hugnast, ja allt að því óeðlilegan áhuga Sérstaks Saksóknara, á að bjóða honum í heimsókn til lengri eða skemmri dvalar enda mun Sigurður vanur því að ráða sínum ferðum sjálfur og ekki síður ráða sínum næturstað. Samkvæmt fréttum mun Sérstakur Saksóknari hafa verið tilbúinn að kosta gistingu og uppihald þann tíma sem Sigurður dveldi hér á landi en á það mátti Sigurður ekki heyra minnst enda vanur að borga fyrir sig sjálfur.

Þarna stóð semsagt hnífurinn í kúnni en þetta mun síðan hafa verið leyst í mesta bróðerni þannig að Sigurður fær að halda sér uppi sjálfur og jafnvel ákveða sjálfur hvenær hann er farinn að níðast á gestrisni íslendinga og koma sér þá heim. Vonandi þarf þá Sérstakur Saksóknari ekki að endurnýja heimboðið seinna. Þá er nú ekki víst að jafnvel standi á hjá Sigurði og gæti þá langur tími liðið þar til glufa opnast aftur í þétta dagskrá hans til að sinna þessu kvabbi frá gamla landinu.

En semsagt, Sigurður á heiður skilið fyrir að koma hingað upp og afgreiða þetta smámál sem mönnum hér virðist þó svo mikið í mun að fá á hreint. Kannski er ekki öll von úti með að svör fáist frá fleirum sem skift hafa um föðurland ef þeir hafa fordæmi Sigurðar fyrir sér.


Eru stjórnvöld meðvirk ?

Ég renni oft yfir bloggið til að fylgjast með umræðunni og fá fleiri fleti á málefnum en birtast í einlitri og yfirborðskenndri umfjöllun fjölmiðla.

Eitt las ég í morgun, ekki á einu, heldur á tveimur bloggsíðum sem fékk mig til að hugsa.

Meðvirkni.

Því var haldið fram á þessum tveimur síðum að stjórnvöld væru meðvirk með  fjármálafyrirtækjunum og bönkunum. Það sýndu aðgerðir og eftir atvikum, aðgerðaleysi í flestu því sem viðkemur þessum fyrirtækjum.

Ég fletti orðinu meðvirkni upp á Google og á doktor.is er skilgreiningin m.a  þessi:

Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegu ástandi. Meðvirkur einstaklingur hefur lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem hann býr við með því t.d að taka ekki ábyrgð á ástandinu og koma sér út úr sjúklegum aðstæðum heldur aðlaga sig að þeim.

Minnir þetta nokkuð á fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnir ?

Gæti verið


Smámunir

Nú sit ég heima með lungnabólgu og hef því haft nógan tíma til að ergja mig á hlutum sem ég hef þurft að láta sitja á hakanum vegna anna.

Eins og til dæmis því af hverju eru Reykvíkingar alltaf jafn hissa og óviðbúnir ef snjóar á þá ? Í Reykjavík fer allt í fár og fréttir af árekstrum og umferðartöfum þekja allar forsíður blaða og fréttatímar eru undirlagðir af hamfaralýsingum á veðurfarinu. Halló, við búum á ÍS-landi ef einhver skildi hafa gleymt því. Eða eru þetta kannski bara fjölmiðlarnir ?

Og hvernig stendur á því að Jóhanna og Steingrímur geta aldrei brosað þega þau koma í viðtöl frammi fyrir alþjóð ? Maður verður þokkalega þreyttur af því að horfa á þessi tvö andlit dómsdags þegar verið er að reyna kreista út úr þeim einhver svör um ástandið. Það er helst manni stökkvi bros ef þau tjá sig um skjaldborg heimilanna. Þar er einn besti brandari síðustu ára og hann virkar enn, allavega fyrir einfaldar sálir eins og mig.

Og annað. Icesave. Ég ætla ekki einu sinni að byrja á Icesave.

Nema að sá sem fann upp nafnið á þessu fyndnasta öfugmæli síðari tíma ætti tvímælalaust að fá listamannalaun næstu tíu til fimmtán árin. Icesave ? Save who ? Að auki tel ég að það ætti að veita honum Fálkaorðuna, ekki einu sinni, heldur tvisvar. Fyrst fyrir að finna upp nafnið á einhverju mesta glæpaspili Íslandssögunnar og svo aftur fyrir að veita öllu þessu fólki vinnu við að finna leið út úr ógöngunum og okkur hinum leðurhausunum til að hneykslast yfir. Ef þetta er ekki atvinnusköpun þá veit ég ekki hvað. Hvað værum við annars að gera nema naga á okkur táneglurnar og bíða eftir að heimskreppan jafnaði sig svo við gætum haldið áfram að keppast við að vera stórust í heimi.

Og hvað er eiginlega að gerast í stjórnmálalífinu hér á landi. Við eyðum heilu ári í að semja við sjálf okkur um eitthvað sem heitir ....... hvað heitir það nú aftur ? Sameitthvað, hvað var það nú aftur sam.... samruni, nei samstæða, nei hvað var það nú ? Eitthvað um að menn standi saman ... já, nú kom það. Samstaða, alveg rétt. Bíddu, stoppa hér. Vorum við ekki að tala um stjórnmálamenn. Að tala um samstöðu ( og meina það ) þar á bæ er eins og að missa eitthvað óheppilegt út úr sér í erfidrykkjunni henna ömmu, eins og " muniði hvað hún var eiturhress í afmælinu hjá Palla bróður, kertið og standlamp......... hmm " Allir verða ferlega vandræðalegir og svo fara menn að tala eitthvað annað og menn keppast við að yfirgnæfa hvern annan í von um að enginn fari nú að rifja upp fleiri sögur af gleðik.. pinnanum ömmu. Svo mæta þessir menn í viðtal í sjónvarp eða Silfur Egils og tala út á við um nauðsyn þess að standa saman.

Og talandi um stjórnmálamenn. Nú er tími prófkjöra yfirstandandi og bæklingarnir hrynja inn um lúguna hver öðrum kostulegri. Þessir bæklingar eru bara til eins nothæfir. Það er að nota þá sem uppeldis og afþreyingu fyrir börnin. Þá er upplagt að lesa ef rigning er úti og börnin eitthvað vansæl. Maður tekur þá fram bæklinga tveggja síðustu prófkjöra, les upp úr þeim eldri og ber síðan saman við þann yngri og biður börnin að finna mismunin, svona svipað og myndirnar í Æskunni í gamla daga. Ef krógarnir eru með uppsteyt þá er reynandi að rífa fram eins og einn bækling ( og til að taka af allann vafa þá er sama í hvaða lit hann er ) reka þetta framan í börnin og öskra " Vilt þú verða eins og þessi þegar þú verður stór ?" Ég verð þó að segja að blái bæklingurinn úr Kópavogi hefur samt virkað best á mínu heimili. Þar er mynd sem alltaf virkar, ég nefni engin nöfn en hann lenti í þriðja sæti minnir mig.

Eitt enn. Hvers vegna er ekki hægt að sýna Leiðarljós á kvöldin svo vinnandi fólk fái tækifæri til að fylgjast með þessum spennandi og uppbyggjandi þáttum. Eru þeir bara fyrir konur og aðra öryrkja ?Þennan tíma í veikindum mínum hef ég gert mér grein fyrir að þetta er eitthvað besta sjónvarpsefni sem landsmönnum hefur verið boðið upp á. Þarna fer saman góður söguþráður ( kannski örlítið langdreginn ), spenna, frábær leikur, í stuttu máli allt það sem prýða má einn sjónvarpsþátt. Verst þykir mér að hafa ekki getað fylgst með frá upphafi en enn einn af kostum þessa þáttar er þó að ekki skiftir meginmáli hvort þú byrjar að fylgjast með fyrsta þætti eða fimmhundruðogtuttugasta þætti, þeir eru allir jafn góðir og grípa mann heljartökum.  Mun Dinah einhverntíma losna við sárabindin af andlitinu ? Hvar er Annie Dutton ? Er hún Teri ? Er Teri kannski Annie ? Mun Josh komast að því hver hefur verið að eitra fyrir hann í 42 þætti ? Svona eru þessir þættir, skilja mann gjarnan eftir með fleiri spurningar en svör, svona eins konan manns.

Hvað um það, búinn að fá útrás fyrir tuðið í dag, nú ætla ég að koma mér vel fyrir í sófan og sjá hvað er í sjónvarpinu. Kannski dett ég niður á eitthvað gott og fræðandi sem ekkert hefur að gera með Icesave, bankahrunið eða prófkjör.

Kveðja

HT


Á mannamáli

Ég heyrði í kvöldfréttum viðtal við Guðmund Geir Gunnarsson nýjan stjórnarformann Byrs.

Það sem gerði þetta viðtal öðrum viðtölum áhugaverðara var að þar voru hlutirnir kallaðir réttum nöfnum og lítið eða ekkert gert til að misbjóða almennri meðalgreind með því að læðast eins og köttur kringum heitan graut.

Hann sagði meðal annars „Ég held að menn hafi staðið í baukunum. Ef það klingdi í honum þá var það hirt með einhverjum ráðum.“ og  „Þarna er náttúrulega fé úti sem menn hafa tekið með einum eða öðrum hætti og eiga að skila aftur inn í sjóðinn svo hann standi sterkari fótum.“

Þarna er í hnotskurn það sem allur almenningur hefur vitað en ekki hefur mátt segja á mannamáli. Hingað til hafa menn í stöðu Guðmundar í besta falli talað um að óvarlega hafi verið farið, unnið á svig við reglur eða menn ekki gætt að sér. Allur svoleiðis talsmáti er í besta lagi fallinn til að reyna að draga úr sök manna eða í það minnsta krafsa yfir það sem allir vita.

Samtryggingin að verki ? Kannski en vonandi ekki.

Hjá þessum fyrirtækjum var blygðunarlaust unnið að því eina markmiði sem mönnum þótti eftirsóknaverðast: Að ryksuga upp allan þann pening sem möguleiki var að koma höndum og koma í féhirslur fámenns hóps sem, þó ótrúlegt megi virðast, er aftur farinn að láta á sér kræla. Þetta var gert í trausti þess að aldrei þyrfti að standa skil á skuldum og manni virðist helst að þessir menn hafi í einlægni trúað því að engin lög næðu yfir þá. Enn sem komið er mætti halda að þeir hafi haft rétt fyrir sér, í það minnsta virðist lítil hreyfing í þá átta að reyna að endurheimta eitthvað af því fé sem vitað er að var hirt úr sjóðum landsmanna. 

Vonandi er eitthvað að breytast í þessum efnum og vonandi er að fleiri talsmenn hinna nýju fjármálafyrirtækja fari nú að tala mannamál og í kjölfarið að við sjáum réttlætinu fullnægt þó ekki væri nema til þess að gefa þjóðinni trú á að vilji sé til að gera Ísland betra og réttlátara landi þar sem lítill hópur manna getur ekki komist upp með að svívirða og ræna land og þjóð og samt haldið áfram að lifa í vellistingum eins og ekkert hafi í skorist.


Nýir valkostir

Nýir valkostir eru á leiðinni, ný framboð eru að fæðast.

Stundin nálgast þar sem hver og einn þarf að líta í eigin barm og taka ákvörðun um hvort hann eða hún er tilbúin til að taka áhættuna af því að kjósa ný nöfn og nýja lista í von um breytingar eða hvort merkja skuli við gamla bókstafinn og vona það bara besta.

Nú er spurning hvort viljinn til breytinga er raunverulegur eða bara í nösunum á okkur. Hér hefur fólk mætt í stórum hópum, barið potta sína og pönnur og krafist breytinga.

Og hvaða breytingar eru það sem almenningur vill ?

Háværust hefur krafa um að menn axli ábyrgð á verkum sínum. Þar eru helst nefndir fjáraflamenn, stjórnendur eftirlitsstofnanna og stjórnmálamenn. Hingað til eru það eingöngu stofnanamennirnir sem hafa þurft að hætta, fjáraflamennirnir þurfa að eiga við sína samvisku en okkar vald felst í pólitíkinni og hverja við viljum þar.

Og þar er stóra spursmálið. Vijum við áfram þessa karaktera sem virðast álíta sig yfir gagnrýni og ábyrgð hafna eða viljum við taka séns á fólki sem kemur allstaðar að úr þjóðfélaginu þ.e. er hluti af áðurnefndum almenning og er tilbúið til að leggjast á árarnar og koma hér á réttlátu þjóðfélagi sem byggir á almennum siðferðisgildum í stjórnsýslu og viðskiptum ?

Ég segi að við eigum að gefa núverandi og fyrrverandi stjórnmálamönnum frí næsta kjörtímabil meðan fólk með óbrenglað siðferði kemur skikk á þetta þjóðfélag okkar í sátt við almenning og fyrirtæki. Tímann geta þeir notað til að reyna að sjá raunveruleikann án flokksgleraugnanna því ég er viss um að flest þetta fólk er með nokkuð óbrenglaða skynsemi þegar flokkshollustunni sleppir.

Gefum flokkseigendafélögunum skýr skilaboð í næstu kosningum, við viljum breyttar leikreglur og við viljum að það sé sanngjarnt gefið í spilinu sem við þurfum öll á einn eða annan hátt að taka þátt í

 

 

 


Leiðtogar óskast

Okkur skortir leiðtoga.

Okkur skortir fólk með kraft, áræði og trúverðugleika til að leiða þjóðina gegnum þessa erfiðu tíma.

Þessir leiðtogar eru örugglega til og ef stjórnmál á Íslandi væru eins og hjá siðuðum þjóðum þá sæjum við þetta fólk í æðstu stöðum. Gallin við stjórnmálin hér eru hinsvegar þau að fólk með óbrenglaða siðferðiskennd og réttsýni og reynslu af alvöru vinnubrögðum á ekki upp á pallborðið í íslensku flokkakerfi. Sumt af þessu fólki hefur ekki áhuga á að láta bendla sig við baktjaldamakk og hrossakaup stjórnmálanna, til þess er það of vant að virðingu sinni.  Það rekst gjarnan illa í flokki, hefur skoðanir sem jafnvel geta verið á snið við flokkslínuna og því ekki á það að treysta í atkvæðagreiðslum. Þetta fólk er að finna í öllum stéttum þjóðfélagsins og allstaðar aflandinu, eru bændur, sjómenn, kennarar, bílstjórar eða reka fyrirtæki. Þetta fólk á það sammerkt að trana sér ekki fram, vill ekki selja sálu sína fyrir bitlinga eða von um að komast að kjötkötlunum heldur sinnir sínum störfum af trúmennsku og atorku og drífur aðra með sér. Það er hlustað á þetta fólk heima í héraði, gjarnan fengið til að taka að sér ábyrgðastörf í sínum félagsskap eða innan sinnar stéttar og nýtur trausts allra sem til þeirra þekkja. Þetta er fólkið sem við þurfum í dag, ekki á forsendum flokkspólitíkurinnar eða sérhagsmuna heldur af því að þjóðin þarfnast þeirra.

Því miður er það þannig í dag að þeir sem helst eiga möguleika á að komast til áhrifa í íslenskri pólitík eru annarsvegar þeir sem flokksforystan treystir best og eða eru bestir í að koma fyrir sig orði og duglegastir við að koma sér í fjölmiðla til að fá auglýsingu. Án þess að alhæfa um of þá er greinilegt að alltof margir okkar pólitísku leiðtoga hafa litla reynslu af hinu daglega amstri sem stærstur hluti þjóðarinnar sinnir, í það minnsta eiga þeir erfitt með að setja sig í okkar spor, um það vitna vinnubrögðin á alþingi undanfarið best.

Köllum það fólk til starfa sem við treystum, ekki þá sem okkur er sagt að treysta. Það ætti að vera ein helsta lexían að læra af óstjórn ug sukki síðustu ára og áratuga


Vantraust

Óðum styttist í kjördag og maður er strax farinn að hlakka til. Eða hvað. Er til einhvers að hlakka ?

Manni sýnist á flestu að alltof litlar breytingar ætli að verða á útliti flokkslistanna. Megnið af því liði sem þátt tók í bullinu síðustu ár, ýmist með þögn, þáttöku eða samþykki er búið að tilkynna framboð sitt og margir undir þeim formerkjum að þeir vilji leggja sitt lóð á vogarskálarnar til endureisnar.

Ja það er nefnilega það !

Er þetta það sem við viljum ?

Höfum við einhverja ástæðu til að trúa því að þessu fólki sé alvara ?

Ef við leiðum hugann sem snöggvast að því hvernig þessum einstaklingum hefur farnast við stjórn landsins á undanförnum árum þá er ekki skrítið þó maður sé svolítið efins. Svo þegar við bætist að engum, ekki einum, hefur þótt ástæða til að útskýra gerðir sínar eða biðjast afsökunar á sinni hlutdeild, jafnvel þó í litlu sé, er svo sem eðlilegt maður fái vont bragð í munninn. Að auki gera þeir sig seka um að eyða dýrmætum tíma, nú meðan heimilin og fyrirtækin brenna, í að þrasa um lítilsverða hluti í sama sal og þeir segjast eftir næstu kosningsr ætla að taka til hendinni í og byggja upp.

Trúverðugt ?

En þetta er dásemdin við lýðræðið margumtalaða. Allir geta verið með. Meira að segja þeir sem eru búnir að ....... langt upp á bak eru gjaldgengir. Ef ég man rétt þá ber frambjóðendum meðal annars að hafa kosningarétt og óflekkað mannorð. Jahá, dæmi hver fyrir sig. Eins og margoft hefur komið fram þá er ábyrgðartilfinning og flekkleysi stjórnmálamanna háð öðrum lögmálum en gerist hjá siðuðu fólki.Í raunveruleikanum er sá sem grunaður er um stórfellt misferli í starfi er ekki líklegur til að hljóta annað samskonar starf hafi hann þurft að hætta annarstaðar þess vegna, jafnvel þó sök sannist ekki. Hann í það minnsta rýrir möguleika sína umtalsvert því hann þykir ekki trúverðugur. Þetta gildir ekki um stjórnmálamenn. Ef þú ert ekki beinlínis dæmdur þá skiptir ekki máli hvernig þú hefur rækt þitt starf svo framarlega sem þú hafir ekki lent upp á kant við flokkinn þinn. Ég hvet fólk til að vera á varðbergi og ekki láta teyma sig eins og hlýðna sauði í kjörklefann til að setja x-ið sitt á réttan stað.

Það eru önnur framboð í bígerð og þar veit ég að áherslurnar eru aðrar en þær sem fjórflokkarnir hafa fram að færa. Mikið er unnið þessa dagana í að finna hæfa einstaklinga til að bjóða sig fram og ég fullyrði að þar verður margur góður kostur í boði.

Ég lýsi vantrausti á fjórflokkana, vantrausti sem byggir á staðreyndum sem öllum eru ljósar nema þeim sem helst ættu að taka gagnrýnina til sín. Þeir eru blindir á eigin galla og verður ekki bjargað héðan af.


Aðrir möguleikar ?

Umræðan um ESB hefur nánast öll verið á einn veg, með eða á móti aðild. Kostir og gallar hafa lítt verið ræddir nema í upphrópunarstíl. Misvísandi fréttir um aðgengi berast frá Brussel og stjórnmálamenn tvístígandi, helst að afstaðan mótist af síðustu skoðanakönnun.En eru kannski aðrir kostir í stöðunni ?Því ekki að líta til austurs og sjá hvaða möguleikar liggja í að halla sér að Asíuþjóðum eins og Indlandi eða Kína ?Þar eru stærstu ónýttu hagkerfi heims í dag og sérfræðingar telja að þungamiðja heimsviðskipta muni í auknum mæli færast þangað á komandi árum. Jafnvel er talið að í kjölfar núverandi kreppu muni þessi ríki taka að sér æ stærra forystuhlutverk í viðskiptalífinu og verða þau stórveldi sem Bandaríkin og Evrópusanbandið eru í dag. Jafnframt tel ég að sú framleiðsluhugsun sem þar ríkir eigi betur við okkur Íslendinga en það loftbólukerfi sem við áður tókum fullan þátt í með sorglegum afleiðingum.Við eigum nú þegar gott samband við bæði þessi ríki og viðskipti okkar þangað hafa aukist jafnt og þétt. Hvaða ókönnuðu möguleikar liggja þar ?Ég er ekki hagfræðingur eða viðskiptamenntaður en hér er hugmynd:Ef við setjum nú upp þá stöðu að við göngum ekki í ESB heldur stöndum ein en í myntsamstarfi við öfluga evrópuþjóð eins og t.d. Noreg sem virðist ætla að standa kreppuna tiltölulega vel af sér, en beinum viðskiptasamböndum okkar í auknum mæli til austurs. Í heimi nútímaviðskipta er heimurinn lítill og mun minnka enn á komandi árum ( með nýjum siglingaleiðum, nýrri flutningatækni osfr. )Við gætum notið þess að kljúfa okkur út úr hefðbundinni hugsun í viðskiptum og vera fyrst til að bjóða þjónustu okkar og framleiðsluvörur markvisst í þá átt.Viðskiptaveldi Bandaríkjana riðar til falls og mun í besta falli verða í mörg ár að jafna sig, viðskipti við ESB eru bundin allskyns lögum og höftum sem við ættum í mörgum tilfellum erfitt með að standa undir og sætta okkur við. Asíuríkin vilja og hafa sótt í meiri viðskipti við vesturlönd.Við erum vissulega örþjóð í fleiri en einum skilningi en við höfum kunnáttu og reynslu sem þá vantar, auk auðlinda sem gætu skipt töluverðu máli fyrir þessi ríki og öllu máli fyrir okkur.Ég slæ þessu fram svona til að opna á umræðu um fleiri möguleika en áður hafa verið ræddir.Sjálfsagt eru fleiri möguleikar í stöðunni en umfram allt, pössum okkur á að festast ekki í þrasi og tuði um afmarkaða hluta tilverunnar, lítum upp úr volæðinu og skoðum hvað veröldin hefur upp á að bjóða. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hjalti Tómasson

Höfundur

Hjalti Tómasson
Hjalti Tómasson
Höfundur er þröngsýnn og gamaldags miðaldra kótelettukarl sem saknar daganna þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og enginn hafði vit á fótbolta nema Bjarni Fel.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 471

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband