Færsluflokkur: Bloggar

Meðaljón?

Góðan dag og megi sólin skína á vegferð ykkar allra.Ég hef komist að því að ég er dæmigerður meðaljón.

Ég meina, hversu mikill meðaljón er hægt að vera?

 Ég er á miðjum aldri, er um einnogáttatíu sem er svona meðal hæð, vinn á skrifstofu frá átta til fjögur fyrir meðallaun, á tiltölulega venjuleg börn með venjulegum konum, borða venjulegann mat, versla í venjulegum verslunum, á mjög venjulegan gráann bíl ( grár mun vera algengasti liturinn á bílum á Íslandi ) á alveg einstaklega venjulega vini sem mér eru venjulega mjög kærir. Ég er ekki frægur fyrir neitt og hef ekki afrekað neitt merkilegt gegnum tíðina ( ég ætla ekki að fara að telja barneignir til afreka eins og sumir.Hjá mér var það fremur lítil fyrirhöfn og ekkert sérlega erfitt ).  Sem sagt, ekkert sem sker mig úr fjöldanum.Þetta gerist ekki öllu venjulegra.Mesta spennan í lífi mínu í dag er hvort hægðirnar eru í lagi þegar ég sinni morgunverkunum.Það er hætt við að þegar upp rennur skapadægur og Lykla Pétur fer yfir rekisterið þá verði mér fengin bara svona venjuleg harpa eða kolaskófla ( eftir því hvoru meginn ég lendi ) og við taki eilífðin á svipuðum nótum og verið hefur. Ekkert englahlutverk fyrir mig. Ekkert áberandi hlutverk í eilífri baráttu góðs og ills frekar en í lifanda lífi

Ég veit ekki alveg hvort ég á að láta mig hlakka til eða ekki. Kannski er þetta bara það besta. Allavega er þetta fyrirhafnarminnst og maður er þá ekki gagnrýndur á meðan fyrir að gera eða geri ekki eitthvað.

 Og það er gott, eða hvað?

Á að vera eftirsóknarvert að stela?

Hér er smá hugleiðing.

Manni er treyst fyrir peningum. Hann stelur hluta af þessum pening og notar fyrir sjálfan sig. Athygli yfirmanna hans er vakin á þessu og að ástæða sé til að ætla að hann hafi stundað það um hríð. Yfirmenn hans setjast á rökstóla til að ákveða hvað skal gera.

Nokkrir möguleikar eru í stöðunni. Á að láta sem ekkert sé? Þetta er hinn vænsti drengur, hefur unnið vel og í ágætu vinfengi við nokkra yfirmenn sína. Auk þess er ekki um þær upphæðir að ræða að þær skipti verulegu máli.

 Nei, það gengur ekki því það eru nokkrir yfirmenn sem eru erfiðir og ekki sáttir við að frá þeim sé stolið. Hvað þá? Varla geta menn" ekki gert ekki neitt " eins og segir í auglýsingunni?

Á að reka hann og biðja hann hvergi þrífast? Jafnvel heimta að hann endurgreiði hverja krónu sem hann er grunaður um að hafa dregið sér?

 Kannski.

Kæra hann og komast að því hver skaðinn er og taka afleiðingunum?

Ahh. Það er nú soldið hæpið. Auk þess gæti komið í ljós að menn hafi nú kannski ekki alveg verið vakandi á vaktinni og skrattakollur gæti sloppið.

En að slá tvær flugur í einu höggi? Láta hann fara en þakka honum samt vel unnin störf og tryggja að hann bíði ekki of mikinn skaða af, þessi öðlingur.

Ok. Þetta er það sem við gerum.

 Látum hann hætta og gerum við hann starfslokasamning og látum þessu leiðindamáli svo lokið. Sættum okkur við að hann kunni að hafa stolið meiru en gerum ekki meira mál úr því. Nóg er nú samt. Svo er heldur ekkert varið í að fara að rugga bátnum um of, hver veit hvað kæmi upp á yfirborðið ef löggan færi að vasast í okkar málum.

Einhverjir yfirmanna eru ekki sáttir en þrátt fyrir það er ákveðið af meirihlutanum að kalla þann grunaða inn á teppi, biðja hann um að taka af skrifborðinu sínu og taka við þessu smáræði inn á bankareikninginn sinn, svona til að minnka sviðann af starfslokunum. Meira skuli svo ekki um málið rætt.

Allir ánægðir og geta farið í sumarfrí með góða samvisku. Allavega þokkalega góða. Minnsta kosti ekki verulega laskaða.

En samviskan plagar samt einhverja. Það kvisast út að málum sé ekki vel komið í félaginu. Almennir hluthafar vilja að fá að vita hvað fór úrskeiðis. Smám saman skýrist málið og fleira fréttist. Menn lyfta brúnum, horfa hver á annann og velta fyrir sér hvort allt sé komið fram. Spurninga er spurt og fljótlega kemur í ljós að yfirmenn flestir eru eitthvað feimnir við að ræða þetta, telja það ekki þess vert að vera að hræra í einhverju sem búið er að ákveða og að auki komi þetta engum öðrum við. Almennir eru ekki sáttir og knýja fast á um svör. Eðlilegar vakna spurningar eins og hversvegna er málið allt ekki rannsakað, hvers vegna er maðurinn leystur út með starfslokasamning þegar hann er grunaður um misferli.

Enn er beðið svara.

 

 

 


Hvað eigum við að gera?

 Því er stundum haldið fram bæði í ræðu og riti að verkalýðshreyfingin sé máttlaus og áhrifalítil. Hún gegni hlutverki sínu illa eða jafnvel ekki sem fulltrúi og baráttutæki launþega. Menn nefna til dæmis lág laun eða öllu heldur lítinn kaupmátt í því sambandi og þá berum við okkur gjarnan við nágrannaþjóðirnar. En er þetta rétt?Til að reyna að svara þeirri spurningu er ef til vill rétt að byrja á að fara yfir stöðuna hjá launþegum á því Herrans ári 2011.Staðan er í stuttu máli sú að eftir að setið hefur verið við langa og erfiða samningagerð þá er gengið frá samning sem verður að teljast ásættanlegur fyrir launþega í ljósi aðstæðna, og ekki síst þá sem minnst hafa borið úr býtum til þessa. Launþegasamtökin og atvinnurekendur sættust á að semja til lengri tíma til að viðhalda stöðugleika. Ríkisvaldið kom svo með í pakkann það sem menn töldu á vanta til að samningar næðust. Nú er spurt: Hafa þessir samningar eitthvað gildi þegar öllu er á botninn hvolft?Greinilegt er að hvorki fyrirtæki né ríkisvald ætla að taka á sig þann hluta af ábyrgðinni sem þó var talað um í samningnum.Fyrirtæki eru byrjuð ( og hafa raunar gert um tíma ) að velta auknum kostnaði af samningunum út í verðlagið og ríkið virðist fremur áhugalítið um að rétta hlut launþega, sem þeir þó lofuðu í samningsferlinu. Minnir svolítið á stöðugleikasáttmálann sáluga.Og hvað ráð hefur verkalýðshreyfingin til að bregðast við undir þessum kringumstæðum?Í sem stystu máli: Engin. Það er búið að taka af okkur verkfallsréttinn nema rétt í kringum samninga og þá er svo að honum þrengt að kraftaverk má teljast ef löglegum skilyrðum er náð til að boða megi til verkfalls.Hvað er til ráða?Hver ætlar að standa upp fyrir launafólk og berja í borðið?Hjárænulegt mjálm úr höfuðstöðvum ASÍ dugar skammt.Staðreyndin er sú að íslenskt launafólk er varnarlaust þegar kemur að því að verjast samningsbrotum viðsemjenda sinna. Ef einhver getur sannfært mig um annað þá bið ég þann hinn sama að upplýsa mig.Félagar !Hvað er til ráða?

Hugmynd til umhugsunar

Hér er hugmynd.

Launþegasamtökin ( og hugsanlega fleiri samtök ) í breiðri samstöðu senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Öllum pólitískt kjörnum fulltrúum almennings til lands og sveita, alþingismönnum, ráðherrum, bæjarfulltrúum og öðrum æðstu embættismönnum þjóðarinnar er hér með boðið að mæta á sameiginlegan fund sem haldin verður yfir eina helgi þar sem farið verður yfir helstu atriði núverandi stjórnarskrár og skoðað hvernig embættisverk síðustu tíu til fimmtán ára samræmast henni auk þess sem boðsgestir verða fræddir um ýmis mál sem snúa að almennu siðferði, ekki endilega útfrá refsilögum, heldur að þeim verði kynnt út á hvað siðferði gengur og hvernig unnt er að samræma það stjórnmálastarfi og stjórnsýslunni almennt. Þarna koma að helstu hugsuðir og kennimenn okkar íslendinga á þessum sviðum auk fræðimanna erlendra sem voru búnir að vara okkur við en voru fordæmdir fyrir vikið. Vonandi ná þeir eyrum manna núna.

Samkundunni verður stjórnað af einstakling sem nýtur trausts meirihluta þjóðarinnar ( Páll Hreinsson til dæmis ? )

Þar sem þessir aðilar hafa ekki borið gæfu til að fara í þessa vinnu sjálfviljugir er ekki óeðlilegt að almenningur sameinist um þessa kröfu.

Sú krafa er gerð á flesta aðra hér á landi að þeir fari eftir lögum og siðferðilegum viðmiðum og mönnum sjaldnast gefið sjálfdæmi um eigin sök eins og stjórnmálamenn leyfa sér að gera.

Haldin verður skrá yfir hverjir mæta eða mæta ekki, haldið utan um eðlileg forföll svo sem veikindi eða nauðsynlegrar fjarrveru í þágu landsins og mun þessi skrá gerð opinber um leið og boðað er til þingkosninga.

Launþegasamtökin áskilja sér rétt til að leita skýringa á fjarveru boðsgesta ef hún er ekki skýrð með eðlilegum hætti.

Það sem fram kemur í rannsóknarskýrslu alþingis sem lögð var fram 12. apríl sl. er áfellisdómur yfir stjórnmálastéttinni fyrst og fremst. Fleiri aðilar fengu slæma útreið svo sem stjórnendur fjármálafyrirtækja og ýmsir aðilar sem sinna áttu eftirlitshlutverki en stjórnmálamennirnir eru þeir einu sem starfa beint í umboði almennings og því þeir einu sem við almenningur getum hugsanlega dregið til ábyrgðar og gert kröfur á að horfi í eigin störf og afleiðingarnar. Embættismenn sitja í stöðum sínum sem þjónar almennings ( sem greiðir launin þeirra og sér þeim farborða töluvert ríflegar en hann hugsar um sjálfan sig, að lokinni starfsævi ) og því ekki óeðlilegt að þeir séu einnig teknir með í hóp stjórnmálamanna.

Það eru svo annar vettvangur þar sem aðrir sem ekki stóðu sig þurfa ( vonandi ) að svara til saka.

Nánast algert vantraust sem stjórnmálamenn njóta í dag er bein afleiðing af því hvaða stefna var tekin í kjölfar skýrslunnar frægu. Í stað þess að setjast til hliðar og viðurkenna vanmátt sinn og mistök þá stóðu menn keikir og sóru af sér alla vitneskju um neitt vafasamt eða menn í besta falli báru fyrir sig vankunnáttu.

Nú er það svo samkvæmt íslenskum lögum og almennu siðferði að það telst refsivert eða ámælisvert að standa hjá og vekja ekki athygli á eða grípa inn í ef menn verða vitni að refsiverðu athæfi. Menn hafa verið sóttir til saka um slíkt.

Vankunnátta, ölvun eða heimska er ekki tekið gilt sem afsökun í dómi.

Um það eru mörg fordæmi.

Þetta er nú bara hugmynd en mér þykir hún góð og má því til með að deila henni með öðrum.


Kjaradeila útgerðarmanna ?

Eru sægreifarnir virkilega svona sterkir inna SA að þeir geti gert kröfu um að kjarasamningum stórs meirihluta landsmann sé haldið í gíslingu ?

Það væri gaman að fá sýn til dæmis ferðaþjónustuaðila eða iðnrekenda á þessa stöðu mála. Erfitt er að sjá hvernig það þjónar hagsmunum annarra en útgerðarmanna að samningar séu stoppaðir af með þessum hætti. Ég hef ekki trú á að fyrirtæki í útflutningi vilji endilega verkfall nú um stundir meðan sú grein gengur svo vel sem raun ber vitni. Það hljóta að vera eðlileg viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar að stöðva allar samningaumleitanir meðan þessi fráleita krafa útgerðarmanna er gerð að skilyrði fyrir viðræðum. Það hefur ekkert með launamenn að gera hvernig þessum málum er háttað nema ef vera skyldi að auðveldara verði að sækja kjarabætur til fyrirtækja sem starfa á eðlilegum samkeppnisgrundvelli. Fiskveiðikerfið var og er pólitískt þrætuepli fyrst og fremst og á að ræðast á þeim vettvangi en ekki í tengslum við kjaraviðræður.

Það er gaman að velta fyrir sér hvað liggur hér að baki. Það sem manni dettur fyrst í hug er að útgerðarmenn séu orðnir úrkula vonar um að þeim takist að stöðva þetta réttlætismál með þeim aðferðum sem þeir eru vanir. Þrátt fyrir allt sem við höfum við stjórnarfarið að athuga þá verður því ekki á móti mælt að almenningur fylgist betur með en áður og orðið erfiðara fyrir þessa aðila að koma sínum málum áfram gegnum stjórnkerfið án þess að vekja athygli og miðað við ástandið í þjóðfélaginu þá yrði hér mikill órói ef ekki yrði unnið áfram í þessum málum af hendi ríkisstjórnarinnar. Þetta vita þeir og því er þessi krafa sett á oddin af þeirra hálfu innan SA.

Annar vinkill er að ef kvótakerfið verður tekið úr höndum sægreifanna þá telja þeir hættu á að áhrif þeirra minnki ef fleirum verður leyft að komast inn í kerfið á viðskiptalegum forsendum.

Hvað sem veldur þá held ég að þar hafi forsvarsmenn atvinnulífsins misreiknað sig illilega þegar þeir gerðu því skóna að verkalýðshreyfingin myndi leggja sín lóð á vogaskálarnar til að viðhalda óbreyttu kerfi. Það sem verra er, þeir afhjúpa mikinn veikleika innan sinna raða ef og þegar þeir neyðast til að bakka með þessi skilyrði. Með þessari framistöðu hafa þeir gert málstað sinn enn veikari en hann var, ekki síst í þeim bæjarfélögum sem þó hafa stutt þá til þessa.


Eitt eymdarlegt ákall til vorra guðumbornu leiðtoga.

Ástkærir leiðtogar vorir heilög Jóhanna af Samfó og St. Sigfússon af VörGum.

Það er af dýpstu auðmýkt og af hreinum huga sem vér berum upp tilfallandi bænakvak vort í von um að þér finnið í göfugu hjarta yðar þá náð að líta til oss með velþóknun, lítilmagnans sem nú á fátt eftir nema fyrningar frá því í fyrra og litla von um bjartari framtíð.

Vér biðjum bænarinnar sem þér kennduð oss af visku yðar æ ofan í æ en ekkert verður oss til bjargar.

" Þetta reddast, þetta reddast " kyrjum vér í kór dagana langa en okkur finnst eins og vér höfum verið yfirgefin, oss líður sem einmana reköldum utan siglingaleiða en ekkert verður til að gleðja augu vor, aðeins grátt tómið og í besta falli einn og einn farfugl á leið til London eða Tortola.

Lengi höfum vér nú beðið bjargræðisins sem þér af náð yðar lofuðuð oss fyrrum en einhverra hluta vegna þá hefur það farið fram hjá oss lítilmagnanum á leið sinni út í hinn stóra heim. Oss tekur í hjartastað að verða vitni að flugi fuglanna án þess að þér getið með nokkru móti haft þar áhrif á þó þeir fljúgi með bjargráðin í klóm sínum, yður og öllum velhugsandi mönnum til hryllings og armæðu. Þeir virðast eitthvað svo frjálsir og tígulegir á ferð sinni um himingeiminn, lausir við daglegt streð og áhyggjur af velferð sinni og unganna sinna.

Meðan sitjum vér í kuldanum og grátum yfir hungri barna vorra og bensínlausum bílnum. Engin Stöð tvö og sum af oss hafa eigi til útlanda komið í tvö ár sökum fátæktar og harðinda þeirra sem nú yfir oss dynja.

Sú ógurlega óværa og óguðlega ribbaldar af kyni Bankamanna gera reglulega strandhögg í byggðir vorar og valda búsifjum miklum og virðist ekkert til varnar. Vér höfum ráðið oss skykkjuklæddar hetjur lagabókstafsins með miklum tilkostnaði en allt kemur fyrir ekki. Eyðingin vex og vex. Skjaldborg sú sem yður, af óendanlegri náð, þóknaðist að lofa að slá kringum byggðir vorar hefur ekki reynst þessum arga kynþætti nein fyrirstaða og einnig verðum vér að bera oss illa undan skattheimtumönnum yðar sem vér þó vitum að ganga harðar fram en þér hafið heimilað.

Vér vitum og treystum að þér, hið eðalborna kyn sem kennir sig við þá æðstu tík, Pólitík, lítið til oss með velþóknun og grípið til þeirra bragða sem þér hafið áður beitt fyrir yður á erfiðum stundum og ávallt hafa gefið góða raun. Vér vitum um annir yðar og oss þykir sárt að ónáða yðar velborinheit með svo lítilsigldu kvaki en verði ekkert að gert mun land vort smám saman verða óbyggilegt og sú gamla þjóð sem hér hefur kúrt frá alda öðli, gegnum hafísár og harðindakafla, eldgos og jarðskjálfta, ánauð og hungur, mun deyja út eða hverfa í haf þjóðanna. Eftir munuð þér ríkja yfir auðu skeri og engan fýsa hér að koma en aðeins verða til sem Grýla fyrir börn og fyrirmynd hrellimyndum gerðum í borg hins heilaga viðar í ævintýralandinu USA.

Megi góður guð vaka yfir velferð yðar og barnanna yðar svo ekkert illt megi yfir yður eða ætt yðar ganga að eilífu.


Samtakamáttur

Af hverju eiga samtök launamanna svo erfitt með að standa saman ?

Það gerist í samningum eftir samningum að samstaðan sem lagt er upp með bregst. Eiga menn eitthvað erfitt með að koma sér saman um markmiðin ?

Hver var tilgangurinn með að stofna með sér samtök launamanna og hvað áunnu forfeður okkar með því ? Hafa menn gleymt því ?

Tilgangurinn var fyrst og fremst að koma fram sem heild og berjast fyrir bættum kjörum, sanngjörnum launum í skiptum fyrir sanngjarna vinnu. Öllu einfaldara er varla hægt að orða þetta markmið. Menn áttuðu sig á því að ekki gekk að fara einn og einn og krefjast úrbóta. Þá voru menn einfaldlega látnir fara og voru stimplaðir vandræðagemsar sem enginn vildi ráða í vinnu. Þessir menn einfaldlega sultu eða beygðu sig undir okið og þögðu.

 Með samtakamættinum varð til afl sem atvinnurekendur urðu að taka tillit til. Þessi barátta var ekki átakalaus og kostaði blóð svita og tár. Með tímanum bötnuðu þó kjörin og ekki hægt að líkja því saman því sem viðgengst áður fyrr miðað við hvernig nú er háttað um kaup og kjör.

 Samt er dapurlegt til þess að hugsa að í mörgu erum við enn að berjast fyrir grundvallaratriðum eins og þeim að fá laun sem duga til framfærslu fyrir stóran hóp okkar félagsmanna. Eins og ástandið er núna er ekki ólíklegt að þessi hópur eigi eftir að stækka.

Innan vébanda stærstu launþegasamtaka landsins eru um það bil 100,000 félagar.

Hundraðþúsund launamenn sem standa saman eru kór sem ekki er hægt að hunsa.

Stöndum saman.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Þolinmæði

Ég er þolinmóður maður. Satt að segja þá er ég þekktur fyrir hve þolinmóður ég er og seinþreyttur til vandræða. Konan mín pirrar sig að vísu stundum á þolinmæðinni t.d. finnst henni með ólíkindum hve þolinmóður ég er gagnvart upvaskinu, hún skilur ekki að mér liggur ekkert á, mér finnst allt í lagi þó ég klári kaffið mitt og blöðin og kíki jafnvel á bloggið áður en ég vind mér í húsverkin en ég tek aðfinnslum hennar af stakri ró og strýk henni um huppinn og þá fer hún bara út til að róa sig og ég klára að hvíla mig áður en ég vaska upp sæll og glaður. Málið dautt.

Og ég á nær ótakmarkaða þolinmæði gagnvart gömlum konum fyrir framan mig í biðröðinni þó þær þurfi að telja upp úr buddunni sinni eða bílstjórum sem aldrei hafa náð fyllilega tökum á að keyra bílinn sinn innan um aðra í umferðinni. Allt þetta læt ég yfir mig ganga og hugsa gjarnan sem svo ( um leið og ég brosi skilningsríkur )  að hver verði nú að eiga með sig og nógur sé nú tíminn.

Þolinmæðin hefur oftar en ekki reynst mér vel. Hún hefur dugað vel á fólk sem hringir og vill selja mér eitthvað. Ég hef komist að því að þolinmæðin, sem kostar mig ekki neitt, er þessu fólki nokkuð dýr því meðan þau eru að reyna að sannfæra mig um ágæti vöru sinnar þá eru þau ekki að selja einhverjum sem hefur minna úhald eða þolinmæði en ég. Það hefur tekið þetta fólk dálítinn tíma að fatta þetta en flest eru búin að átta sig og því vegna er ég nú nánast laus við þessar hringingar frá ákveðnum aðilum sem sáu í mér nokkuð örugga tekjulind áður en ég breytti háttum mínum. Hinsvegar á ég orðið töluvert af bókum sem ég hef í einhverju bríaríi fengið lánaðar á árum áður því þolinmæði mín er úthaldsbetri en minni vina minna.

Það eina sem hugsanlega raskar ró minni og reynir á þolinmæðina eru stjórnmálamenn. Ég veit ekki alveg hvað það er sem fer svona í mig en einu skiptin sem ég þarf verulega taka á og vara mig á þrýstingnum er þegar stjórnmálamenn koma fram í fjölmiðlum og tala heil ósköp um ekki neitt. Mér er meinilla við að láta ljúga upp í opið geðið á mér og ég er enn ekki búinn að fyrirgefa þeim að hafa mig að fífli um síðustu kosningar. Auk þess að vera þolinmóður þá er ég örlítið trúgjarn þegar kemur að fólki í opinberum stöðum. Einhvernveginn þá er maður alin upp í þeirri trú að því hærra sem menn eru í þjóðfélagsstiganum þá sé trúverðuleiki þeirra meiri. Hver vill til dæmis trúa því að þingmaðurinn hans gangi um ljúgandi ? Ekki ég, svo mikið er víst !

Og þó ég sé seinþreyttur til vandræða og flestum mönnum þolinmóðari þá verð ég að viðurkenna að stundum örlar á pirring í huga mínum. Ég fæ semsagt ekki séð að neitt gangi að uppfylla loforðin sem mér voru gefin fyrir um það bil tveimur árum um Nýtt Ísland þar sem allt væri upp á borðinu og allir myndu una glaðir við sitt, sekir menn dregnír fyrir dóm, hæfileikalausir stjórnmálamenn sneru sér aftur að líffræðinni eða fiskræktinni eða fé yrði sótt til baka í vasa fjárglæframanna og unnið markvisst að því að hífa okkur upp úr drullupollinum.

Ekkert af þessu er að rætast og þolinmæðin er verulega farin að minnka.


Er ekki allt í lagi með löggjafann ?

Samkvæmt hvaða heimild er leyfilegt að halda eftir bótum vegna vanskila vinnuveitanda ?

Er það samkvæmt lögum eða eru þetta vinnureglur sem Sjóvá vinnur eftir ?

Miðað við ýmislegt annað sem við kemur tryggingarfélögunum þá kæmi mér ekki á óvart að þessi heimild stæðist ekki nánari skoðun.


mbl.is Fær ekki bætur að fullu vegna vanskila atvinnurekanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Völd stjórnmálamanna

Hugsjónir stjórnmálamanna ( ef einhverjar eru ) virðast hafa tilhneygingu til að þynnast út og jafnvel hverfa þegar komið er í áhrifastöðu svo sem þingmennsku eða ráðherraembætti.

Þetta má glögglega sjá ef skoðaður er ferill stjórnmálamanna sem verið hafa í stjórnarandstöðu og komist til áhrifa og öfugt. Í andstöðu sinni eru menn opnir fyrir því að túlka hugsjónir sínar á allt annan hátt en þeir gera þegar þeir komast til valda og þurfa að fara taka ábyrgð á því hvað þeir segja eða gera.

Hvað veldur er ekki gott að segja en grunur minn er sá að innst í hugskoti flestra stjórnmálamanna sé aðalatriðið að ná völdum og halda þeim með öllum tiltækum ráðum, jafnvel þó það þýði að ganga þurfi á bak orða sinna. Almenningur er fljótur að gleyma eins og við vitum. Að menn þori eða vilji standa með hugsjónum sínum er liðin tíð og þá fer maður að velta fyrir sér hver tilgangurinn með stjórnmálunum er orðin.

Er hann sá að gera landi sínu og þjóð til góðs eða snýst hann um að komast í góða og þægilega innivinnu með öllum þeim bittlingum sem stjórnmálamenn sjálfir, í gegnum tíðina,  hafa komið á sér til handa ? Það er von menn spyrji.

En það er annar vinkill á þetta leikrit sem stjórnmálin eru sem maður veltir fyrir sér og hann er þessi:

Hver eru raunveruleg völd stjórnmálamanna á Íslandi þegar öllu er á botninn hvolft ?

Allir núverandi stjórnmálaflokkar hafa á stefnuskrá sinni að jafna lífskjör, standa vörð um og efla heilbrigðis og menntamál í landinu og í stuttu máli, gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hér sé samfélag þar sem allir geta lifað sáttir og hafi nóg til hnífs og skeiðar og þurfi ekki að líða skort í einu eða neinu. Vissulega vilja menn fara mismunandi leiðir að þessum markmiðum en þó er þetta það sem þeir allir boða. Þetta má allt sjá í stefnuskrám flokkanna og lesa í þeim bæklingum sem berast fyrir hverjar kosningar.

Hvernig hefur til tekist ?

Þeir flokkar sem teljast til hægri og vilja fara leið frelsis og athafna hafa með framferði sínu sett okkur svo kyrfilega á hausinn að frægt er orðið um heimsbyggð alla og flokkarnir til vinstri eru svo á góðri leið með að fullkomna glæpinn með aðgerðum sínum og eða aðgerðarleysi. Við bætist svo að græna hugsjónin gengur út á að engin verkefni eða framkvæmdir séu af hinu góða ef því tengjast útlendingar eða draumi þeirra um hreint og ósnert Ísland verði haggað.

Skýringin á þessari stöðu er að mínu viti ekki flókin eða langsótt.

Hugmyndafræðin hefur ekkert breyst þrátt fyrir breytt stjórnarmynstur. Það er þessvegna sem maður veltir fyrir sér raunverulegum völdum stjórnmálamanna.

Þessi hugmyndafræði sem allir flokkar á Íslandi virðast neyðast til að fylgja er í stuttu máli eftirfarandi og er í tvennu lagi:

A) Fjármagnseigendur, hvort heldur eru bankar eða einstaklingar mega ekki tapa fé. Það er náttúrulögmál sem ekki virðist hægt að yfirstíga frekar en gangur himintunglana. Nú er ég ekki að tala um aðila sem með forsjálni og dugnaði hafa verið að nurla saman til elliáranna heldur þá sem raunverulega ráða yfir fjármagninu. Trú stjórnvalda er sú að tapi þessir aðilar fé muni þau ósköp þýða að jörðin muni hætta að ganga braut sína, sólin hætta að skína og hér muni verða óbyggilegt um aldur og æfi. Engu máli skipti þó menn hafi tekið óverjandi áhættu í gróðavon sinni eða jafnvel brotið einhver lög í kapphlaupi sínu um aurana. Engu máli skiptir heldur hvort hér er um raunverulega peninga að ræða með verðmæti á bak við sig eða upphæðir sem skráðar eru með þykku bleki í bækur þessara höfðingja önnur en ákveðið er á virtum bókhaldsskrifstofum og fundin eru með endurbættum og þróuðum reikniskúnstum og eru í besta falli löglegar en óverjandi siðferðilega.

B) Almenningur skal borga og besta leiðin til þess er að sækja þessa aura gegnum skattakerfið. Skotheld aðferð sem lengi hefur verið stunduð með ágætum árangri víða um heim. Þetta skal gert á eins stuttum tíma og hægt er enda fellur fjármagnseigendum illa að vera aðskildir frá fé sínu of lengi. Ef það þýðir að almenningur njóti lakari lífskjara eða tapi beinlínis á því peningum eða eignum þá verður bara svo að vera að áliti stjórnmálamanna. Það þýðir allavega ekki annað en að fólk verður óánægt um tíma en síðan, eins og við vitum, er okkar háttur að setja bara undir okkur hausinn og halda áfram að streða. Þetta vita stjórnmálamenn.

Hvernig fellur þessi hugmyndafræði svo að loforðum stjórnmálamanna sem þeir kyrja svo fallega á mannamótum og þá helst rétt fyrir kosningar ?

Engan veginn að mínu viti og þó gefur maður sér að þeir sem gefi sig fram til starfa fyrir almenning ætli sér að standa við loforðin. Hverju á maður að trúa þegar þetta fólk kemur fram fyrir alþjóð og lofar öllu fögru ?

Efndirnar eru þannig að maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað ráði för þegar á hólminn er komið. Hvort láta stjórnmálamenn ráðast af ótta sínum við peningavaldið eða vilja sínum til að efna loforð sín.

Hvað á maður að halda þegar flokkar og stjórnmálamenn sem haldið hafa uppi ákveðnum málflutningi í þágu fólksins í landinu og vilja kenna sig við jöfnuð og mannréttindi ganga af trúnni nánast á einni nóttu og fara að ganga erinda aðila erlendra sem innlendra sem, að manni finnst, eiga ekkert inni hjá okkur og ættu með réttu að vera lokaðir bak við lás og slá eða í besta falli að hypja sig burt af landinu ( sem jú sumir hafa gert ) og hlífa okkur sem heima sitjum í súpunni við að líta þá augum.

Hver hefur raunverulega völdin á Íslandi ?

Maður bara spyr sig !


Næsta síða »

Um bloggið

Hjalti Tómasson

Höfundur

Hjalti Tómasson
Hjalti Tómasson
Höfundur er þröngsýnn og gamaldags miðaldra kótelettukarl sem saknar daganna þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og enginn hafði vit á fótbolta nema Bjarni Fel.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband