Stjórnmálin og við

Ég hef fulla samúð með ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún glímir við risavaxið verkefni og ekki er að sjá að stjórnarandstaðan ætli að létta undir með henni.

Ég er hóflega bjartsýnn á að Jóhönnu takist að leysa þau mál sem leysa þarf en hún fær allavega tækifæri hjá mér til að sýna hvað í henni býr og aðallega vegna þess að við eigum ekki annars úrkosta.

Í mér blundar þó ótti um að verkefnið sé þessu góða fólki ofviða. Vandamálið liggur í kerfinu sem við búum við ekki síður en fólkinu sjálfu. 

 Allir vita hvernig síðasta stjórn starfaði, ein uppi í fílabeinsturni, sambandslaus við kjósendur sína og aðeins í lauslegum tengslum við raunveruleikann sem ritstýrt var af öfgafullum frjálshyggjuöflum eins og skýrt er að koma í ljós þessa dagana.

Núverandi stjórn starfar með leyfi framsóknarflokksins og ekkert mál sem máli skiptir fer í gegn áður en hann er búinn að leggja blessun sína yfir það. Steingrímur bakkar og bakkar ekki með hvalveiðarnar, stjórnlagaþing eða ekki stjórnlagaþing og þá hlutverk, þess verður óskýrara með hverjum deginum, björgunarpakkinn fyrir heimilin er loðinn og kemur kannski eftir tvær vikur. Þessi staða er uppi fyrst og fremst vegna þess að ekkert má segja eða gera sem gæti styggt framsókn.

Alþingi er máttlaus stofnun sem ekki hefur starfað sjálfstætt í háa herrans tíð og ráðherrar og embættismenn hafa komist upp með að ganga í berhögg við vilja þingsins, til dæmis með því að neita að svara fyrirspurnum eða draga lappirnar í að framfylgja ákvörðunum þess. Menn hafa svo sínar aðferðir við að svæfa mál sem ekki er áhugi fyrir, vísa þeim til nefndar sem vísar þeim svo til annarrar nefndar, ef nefndirnar hafa þá fyrir því að hittast á annað borð. Hvað hafa t.d. hugmyndir um breytingarnar á stjórnarskránni farið í mörg ár milli nefnda alþingis ? Og hvað eru margar nefndir að störfum ? Mál eru samþykkt nánast án umræðu ( vegna þess að búið er að semja í bakherbergjum ) og á færibandi síðustu dagana fyrir þinglok. Mikill tími fer á þinginu við umræður um ágæti sitt og síns flokks og hrauna yfir aðra flokka. Og í kaupbæti gefa menn sér tíma til að tryggja sér góð eftirlaun, gjörningur sem tók dagspart að skella á en hefur tekið langann tima að ganga til baka og þá aðeins að hluta, vegna óljósra reglna um áunnin eignarétt, ef ég skil það rétt !

Og flokkarnir passa vel upp á sitt. Þeir hafa tryggt sér fjárframlög frá ríkinu enda hæg heimatökin. Á sama tím hefur gengið bölvanlega að fá í gegn upplýsingar um fjárreiður þeirra. 

Er hægt að ætlast til þess að almenningur beri virðingu fyrir þessari stofnun ? Er hægt að ætlast til að við berum virðingu fyrir stjórnmálamönnum almennt ?

Ég ætla ekki einusinni að byrja á hugsunum mínum um ábyrgð og heiðarleika......


Matrix heilkennið

Við eru alltaf að spyrja: Hvað gerðist eiginlega ? Afhverju erum við í þessari slæmu stöðu ?

Við viljum setja allskyns batterý af stað til að rannsaka bankakreppuna, rannsaka hrunið og svo framvegis. Það þarf ekki lengur.

Ég er búinn að finna skýringuna á sofandahætti leiðtoga vorra og stjórnenda hinna ýmsu stofnanna sem við höfum til þessa treyst í blindni fyrir hag okkar og velferð.

Svo virðist að hér sé á ferðinni svokallað Matrix heilkenni. Þessu fyrirbæri hefur til þessa helst verið lýst í æsikvikmyndum og svo hafa einstöku sértrúarhópar einnig haldið þessari kenningu á lofti en gjarnan verið afskrifaðir sem hópar af rugludöllum, gott ef ekki bara geðveikir. En rannsóknir mínar hafa leitt í ljós að sennilega hafa menn haft nokkuð til síns máls.

Þetta heilkenni lýsir sér þannig að menn komast smám saman í ástand sem ekki er ólíkt vökudraumi nema hvað menn verða ekki utangátta og úti á þekju eins og gjarnan vill verða með fólk sem dreymir dagdrauma heldur virðist sem menn fari að lifa gjörvöllu lífi sínu í samræmi við drauminn og loki þar með á að það sem aðrir kalla raunveruleika. Ekki er að sjá að þetta sé meðfæddur galli því framan af aldri er þetta fólk eðlilegt og greindin jafnvel heldur hærri en gengur og gerist. Til dæmis er ekki hægt að tengja ástandið við skólagöngu eða búsetu. Helst er að hægt sé að tengja þau við þáttöku í félagsstarfi ýmiskonar svo sem stjórnmálastarfi, íþróttastarfi eða verkalýðsmálum sem menn leiðast gjarnan í á seinni unglingsárum. Körlum virðist hættara en konum en þó eru konur úr þessum hópi ekki óþekktar og sumar töluvert áberandi.

Ekki er erfitt að koma auga á sum einkennin. Nægir að nefna eitthvað sem allir þekkja t.d. ; KR eru bestir eða bankarnir eru í sterkri stöðu eða þá eitthvað enn fráleitara eins og, seðlabankastjóri, fínn kall. ( það eru til einstaklingar sem hafa heyrst hrópa allt þrennt en þeim er ekki við bjargandi og þarf hreinlega að loka inni ) Þetta er einsog allir sjá, þvert á raunveruleikann.

Þetta þarf ekki að vera svo alvarlegt í daglegu amstri og verður fyrst hættulegt þegar þessir einstaklingar komast í valdastöður. Þetta fólk sér og skynjar hlutina á allt annan hátt en aðrir. Það er til dæmis ekki óalgengt að heyra sjúklinga úr fjármálageiranum tala um tugi milljarða eins og við ræðum um skiptimynt og að kaupa t.d. banka fyrir þetta fólk er álíka og fyrir okkur hin að kaupa bíl. Þeir sem eru á stjórnmálasviðinu heyrast gjarnan tala um ábyrgð og reynslu en við megum ekki gleyma því að þar er ekki sami skilningur og almennt ríkir um þessi hugtök. Íþróttasjúklingarnir eru síðan svolítið sér á parti ( meira að segja í þessum hóp ) og skal ekki fjölyrt frekar. Önnur einkenni sem erfiðara er að koma auga á eru ofurtrú á yfirburði flokksins ( eða félagsins síns ) ofsóknaræði sem kemur þó helst í ljós ef á móti blæs og hefnigirni virðist fylgja þessum sjúkdómi.

En þessi sjúkdómur kemur ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Til staðar þurfa að vera ákveðin undirliggjandi þættir til að þessi sjúkdómur nái að festa rætur. Einstaklingur þarf að vera haldin geðveilu á vægu stigi svosem vott af mikilmennskubrjálæði, snert af siðblindu, háður sterkum leiðtoga og fleira mætti nefna. Þeir sem ekki hafa téða undirliggjandi kvilla ná sér gjarna fljótt ef þeir átta sig í tíma.

Þetta er í stuttu máli skýring á ástandinu


Bréf bankastjóranna

Ég var að lesa bréf bankastjórann í heild sinni og finnst það merkileg lesning í ljósi aðstæðna.

Davíð Oddson er sjálfum sér líkur og sýnir í hnotskurn hvaða hug hann ber til lands og þjóðar. Hans persóna skal koma fyrst, síðan rest.

Um bréf Davíðs ætla ég ekki að fjölyrða frekar, tel reyndar að hann hefði getað sparað seðlabankanum pappírinn því efni þess er hægt að draga saman í eina setningu : Þegiðu kelling !

Um skriftir hinna vil ég segja.

Ég get vel skilið að þeir séu ekki sammála því mati að þeir séu ekki réttu mennirnir í þessa stóla. Þetta er hinsvegar ekki spurning um þeirra persónulegu skoðun. Þetta er spurning um hvort og þá hvernig við ætlum að byrja á að vinna okkur út úr þeirri slæmu stöðu sem við erum í.

Ef draga má saman í stuttu máli álit sérfræðinga, erlendra og innlendra, þá er ljóst að fyrr en við endurvekjum einhvern vísi að trausti á stjórn peningamála í landinu er tómt mál að tala um samninga um stöðu okkar. Fram hefur komið að Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn virðist ekki treysta okkur til að taka eina einustu ákvörðun upp á okkar einsdæmi, samningurinn við þá hljóðar upp á að öllum ákvörðunum skuli rennt þar í gegn til samþykktar eða synjunar ( gjaldeyrishöft, vaxtastig oflr. ) Forstöðumenn erlendra peningastofnanna koma fram hver á eftir öðrum ( í erlendum fjölmiðlum ) og tjá sig um stöðu okkar og í gegn skín að þeir hafa ekki trú á neinum þeim aðgerðum sem ræddar eru hér heima þ.e. þeir treysta okkur ekki. Það vantar bara að Evrópusambandið taki ákvörðunina fyrir okkur um inngöngu. Erlendir ráðamenn ríkja sem þó hafa líst yfir vilja til að hjálpa okkur læðast eins og kettir kringum heitann graut þegar kemur að því að tjá sig um þá hjálp. Það eru einna helst Norðmenn sem sýnt hafa sig líklega til að gera eitthvað jákvætt en þó með ströngum skilyrðum. Í stuttu máli, okkur er ekki trúað þó við bjóðum góðann daginn

Um þetta snýst deilan um seðlabankann, ekki hvort seðlabankastjórar séu ráðnir til svo og svo margra ára. Hún snýst heldur ekki um hvort seðlabankinn sé sjálfstæð stofnun eða ekki. Margir hafa verið sviptir sjálfræði fyrir minni sakir en bornar eru upp á þá menn sem nú sitja þar.

Þetta verða bankastjórar að skilja. Telji þeir á sér brotið hafa þeir ýmsar leiðir til að leita réttar síns.


Davíð ?

Þetta er ekki í fyrsta skifti sem Davíð Oddson bregst harkalega við gagnrýni og ef eitthvað er þá virðist kallinn fara versnandi.

Ég skora á Davíð að koma fram opinberlega og útskýra fyrir okkur dauðlegum almúganum hvernig hann ætlar að fara að því að sinna starfi sínu í andstöðu við stjórnvöld og þjóð sína. Rétt er það að Seðlabankinn er óháð stofnun en þær aðstæður sem hér ríkja í dag eru án nokkurs fordæmis og því ekki óeðlilegt að gripið sé til ráðstafanna sem öllu jafna væru ekki upp á borðinu.

Við þurfum að skapa traust innanlands sem utan og það er fullreynt að Davíð er ekki treyst nema af hluta flokksfélaga sinna sem ekki virðast vera fyllilega vaknaðir til veruleikans.

Davíð, tak sæng þína og gakk, hirtu starflokalaunin og lifðu í friði


mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar

Breytinga er þörf, um það erum við flest sammála. Það er að segja flestir nema stjórnmálamenn. Einhverra hluta vegna þá virðast þeir forðast alla umræðu um það sem máli skiftir, þ.e. breytingar á grunnkerfinu, hugmyndafræðinni sem þeir sjálfir eru ofurseldir. Þar er ég ekki að tala um hugmyndafræði flokkanna sem slíkra heldur sú hugsun að þeir séu ekki háðir sömu viðmiðun og aðrir þegar kemur að því að bera ábyrgð eða svara fyrir mistök. Þetta virðist vera orðið að náttúrulögmáli.Þetta náttúrulögmál lýsir sér í því að komi upp grunur um mistök eða athæfi sem ekki þykir boðlegt t.d. vanhæfi við ákvarðanatöku þá má alltaf benda á utanaðkomandi aðstæður eða í versta falli fordæmi fyrirrennarra. Og hversvegna ætti þetta ekki að geta gengið áfram ? Það eru jú stjórnmálamenn sjálfir sem komið hafa hlutunum svo fyrir að samtryggingin er alger, lögin þannig úr garði gerð að hægt er að túlka þau nánast að vild.Það er ekki meiningin með þessum skrifum að gera stjórnmálamenn upp til hópa að einhverjum skúrkum og eiginhagsmunapoturum sem ekkert víla fyrir sér. Þeir eru vissulega til en flest af þessu fólki er gott og grandvart fólk sem ekkert vill frekar en vinna landi og þjóð til heilla. Þessu kerfi hefur verið komið á smátt og smátt í áranna rás og ber kannski frekar keim af heimóttaskap og höfðingjahræðslu og stjórnmálamenn hvers tíma taka í arf þetta vinnuumhverfi og þessa hugmyndafræði. Það þarf fleiri en einn til að breyta þessu en til að breyta þarf hver og einn af okkar pólitísku þjónum að líta í, ekki bara sinn barm, heldur flokksins síns og skoða vel og lengi hvert þetta kerfi hefur fleytt okkur. Það er ástæða fyrir þeim kröfum að hér þurfi að stokka upp til dæmis í stjórnsýslunni ekki síður en í hagkerfinu. Við höfum í mörg ár, sjálfsagt lengur en mitt minni nær, þurft að sitja undir fregnum af pólitískum stöðuveitingum, geðþóttaákvörðunum, sérframboðum óánægðra lukkuriddara, lögum sem álitamál er að standist stjórnarskrá eða alþjóðalög og svo mætti áfram telja. Það er ekki nóg að breyta stjórnaskránni ef innra starf og hugmyndir einstaklinga í stjórnmálum breytast ekki. Með tímanum mun sækja í sama horfið aftur, hversu vel sem við vöndum til verka á öðrum sviðum. Við breytum ekki mannlegu eðli, við getum aðeins stýrt því á þær brautir sem henta fjöldanum í því samfélagi sem við kjósum að búa í. Afleiðingarnar af hinu sjáum við nú og heyrum á hverjum degi, græðgi og ábyrgðaleysi sem særir blygðunarkennd hverrar ærlegrar manneskju  

Hvar eru leiðtogarnir ?

Hvar eru nú leiðtogarnir sem við höfum kosið ( eða ekki kosið ) til að veita okkur leiðsögn á erfiðum tímum ?

Hvernig stendur á því að enginn, ekki forsetinn, biskupinn eða verkalýðsforingjar og leiðtogar atvinnulífsins, hefur fundið sig knúinn að koma fyrir alþjóð og reyna að tala smá kjark í fólk ?

Hvar er hinn íslenski Obama ?

Og hvar er þessi fræga íslenska bjartsýni þegar til á að taka ?

Þetta reddast, er stundum sagt og gjarnan vitnað í íslenska þjóðarsál, að þessi hugsanagangur sé eitt af karaktereinkennum þjóðarinnar.

Auðvitað reddast þetta. Við höfum áður verið í djúpum.......  og risið upp. Þessi þjóð, sem býr úti á mörkum hins byggilega heims hefur gengið í gegnum ýmislegt á stuttri æfi. Eldgos, jarðskjálftar, pestir, aflabrestur, fjárfellir, hafís og harðindi, prestar og sýslumenn, stundum allt í einu, hafa dunið yfir þessa þjóð með nokkuð reglulegu millibili frá því að land byggðist. Alltaf höfum við náð okkur á strik aftur og byrjað upp á nýtt.

Á skömmum tíma erum við orðin eitt ríkasta og tæknivæddasta samfélag í heimi og þó nú bjáti ýmislegt á þá veit ég að við munum rísa upp aftur og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið með að gera þetta land enn byggilegra og meir aðlaðandi, bæði fyrir okkur og ekki síður komandi kynslóðir.

Við erum lítil þjóð en samt höfum við virkjað fallvötn, beislað orkuna í iðrum jarðar, barist við heimsveldi um yfirráð yfir fiskimiðum og sigrað, komið upp háu menntunarstigi, góðri heilsugæslu og svo mætti lengi telja. Þetta gerðum við á okkar forsendum en ekki annarra og aðrar þjóðir hafa sýnt áhuga á að læra af okkur til að leiðrétta eigin mistök. Við við hættum að flytja inn kol og olíu til að framleiða rafmagn og hita og fórum að nýta okkar eigin auðlindir.

Við þurfum að gera þetta í enn meira mæli, við þurfum að koma okkur út úr hafta og styrkjakerfi landbúnaðarins og gera hann arðbæran fyrir land og þjóð, við þurfum að tryggja að hagnaður af sjávarútveginum sé nýttur í þágu Íslands og íslendinga en ekki til að gambla með erlendis. Hvort þessi hagnaður er á hendi færri eða fleiri aðila skiftir minna máli, aðalatriðið er að hann sé nýttur í landsins þágu.

Þetta hljómar kannski eins og framboðsræða en er það ekki. Fyrsta mál á dagskrá er að kjósa yfir okkur fólk sem hugsar eins og íslendingar, um íslendinga en ekki eins og leiðtogar milljónaþjóðar sem hefur af takmarkalausum auðlindum að ausa. Næsta mál er að einhenda sér í að laga til í lagaumhverfi og stjórnsýslu þannig að tryggt sé að þar starfi fólk í krafti kunnáttu og fagsemi en ekki í skjóli ættar eða flokkatengsla. Bæta siðferði í atvinnu og fjármálalífinu þannig að ljóst sé að allir vinni eftir sömu hugsjón : Að gera Ísland að enn betra landi

Áfram Ísland


Barnalegt ?

Eftir að vera búinn að fylgjast með umræðunni upp á síðkastið rann allt í einu fyrir mér ljós !

Nú erum við í rúma 100 daga búin að hlusta og horfa á ráðamenn, bankamenn, embættismenn sverja af sér allt sem við kemur bankahruninu og eins og frægt er orðið að endemum þá er nú ljóst að engin ber ábyrgð á neinu ef marka má orð þeirra og æði.

Þó allir þessir aðilar hafi á einn eða annan hátt verið staðnir að verki með lúkuna á kafi í kökukrukkunni þá þá sverja þeir allt af sér. Ég gerði það ekki er svarið.

Ég á dóttur sem frá unga aldri virtist aldrei geta gert sér grein fyrir orsökum og afleiðingu. Þó hún væri staðin að verki við einhverja óknytti þá kom svarið alltaf það sama og með því fylgdu tvö stór blá augu; Ég gerði það ekki. Einnig var greinilegt að hún var alls ófær um að hafa stjórn á einföldustu aðstæðum í umhverfi sínu. Þetta er kannski ekkert óalgengt með ung börn en þetta hélt áfram eftir að hún fór að komast til vits. Við foreldrar hennar höfðum að sjálfsögðu af þessu stórar áhyggjur og veltum mikið fyrir okkur hvað væri eiginlega að barninu.

Seinna kom svo í ljós að hún var með athyglisbrest og ofvirkni auk smávægilegra þroskafrávika ( eins og það heitir á fagmáli )

Og þarna kom ljósið yfir mig.

Ætli þetta lið sé allt með ofvirkni ? Og Athyglisbrest ? Og kannski þroskafrávik ?

Maður spyr sig


Ef ég væri ríkur

Ef ég hefði verið ríkur væru hlutirnir í mínu lífi líklega svolítið öðruvísi en þeir eru.

Fyrir það fyrsta þá þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur af lánunum mínum og þeim sem voru svo hugrakkir að skrifa uppá hjá mér.

Ég gæti meira að segja lækkað siðferðisstandardinn dáldið og sagt; Ykkur var nær að skrifa uppá, sorrý.

Líklegra er þó að ég hefði bara fengið að leggja fram veð í lánunum sjálfum eða þá bankinn hefði bara litið framhjá slíkum smámunum enda gott traust milli mín og bankans og ég sennilega vildarviskiftavinur .

En þetta eru óþarfa pælingar, trúlega væri búið að afskrifa þetta alltsaman hvort eð er enda ekkert af mér að hafa, allir mínir peningar á nokkuð öruggum reikningum erlendis, það sá lögfræðideild bankans um. Skrítið samt að lögfræðideildin skuli sjá um slíkt ( leiðinlegir þessir fundir með skattalögfræðingnum þeirra, vá maður ) Jæja, það er þá í öllu falli löglegt.

Ég væri trúlega hættur í vinnunni þó það skifti svosem ekki neinu máli, maður hefur þá loksins tíma til að sinna sínum áhugamálum og svo þyrfti ég líklega að líta eftir þessum örfáu milljörðum sem ég á þarna úti.

Ég gæti líka klárað að innrétta nýja húsið í London ( svakalega er annars húsnæðisverð hátt hérna, Reykjavík hvað ha ) ? Að vísu hefði ég þokkalega nágranna, einhverja sendiherra og forstjóra og svoleiðis svo ekki væri nú talað um félagana að heiman.

Strákarnir frá Kaupþingi og Landsbankanum sem búa hérna úti hefðu ábyggilega verið mér hjálplegir að koma mér fyrir, bera með mér sófana og flatskjáina og svoleiðis. Jón Ásgeir hefði örugglega komið með kippu. Ég hefði þá boðið þeim eitthvað snarl að launum, kannski skotist með þá til Parísar eða Köben.

Kosturinn við að vera þarna í London er að maður væri laus við þetta þreytandi kvabb og látlausu kjaftasögur heima. Fólk getur verið svo blint og illa innrætt, maður hefði bara ekki trúað þessu uppá íslendinga.  Halló, er einhver öfundsjúkur ?

Það er gaman að láta sig dreyma en hinn nístandi veruleiki er sá að ég á ekkert, ég skulda bara og ég get ekki séð að ég muni fá neina sérmeðferð í bankanum mínum þó svo að ég hafi ekki tekið þátt neinu kaupæði með hlutabréf eða eignir.

Ég keypti hús fyrir nokkrum árum yfir mig og fjölskylduna mína og fór á hausinn, svo einfalt er það. Enginn keypti af mér á yfirverði eða lagði stórar upphæðir inn á minn reikning svo ég gæti haldið andlitinu útá við.

Ég ( eins og hundruð ef ekki þúsundir íslendinga ) þarf að standa ábyrgur gjörða minna og er svosem ekkert um það að segja.

Hitt þykir mér verra að verða líka að bæta á mig skuldum þeirra sem nú búa í rándýrum íbúðum erlendis og eru ekki menn til að koma heim og standa fyrir máli sínu.

En nú er mál að linni.

Sólin hækkar á lofti með hverjum deginum og innan skamms fer að hilla undir blessað vorið með blóm í haga, börnin eru heilsuhraust og sjálfur hef ég góðar hægðir og ræð hvenær þær koma.

Líklega þarf maður ekkert að vera að kvarta.


Engin lög brotin ?

Sigurður Einarsson segir í yfirlýsingu að engin lög hafi verið brotin í tengslum við lán til valdra viðskiftavina Kaupþings.

Eru engi lög sem ná yfir meðferð fjármuna í annarra eigu eða er fjármálafyrirtækjum heimilt að ráðstafa þeim að vild án nokkurra takmarkana, lagalegra eða siðferðilegra ?

Þetta er kannski barnalega spurt en gaman væri að fá svar


mbl.is Sigurður segir engin lög hafa verið brotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langferðin hefst á einu skrefi.....

Hæ.

Ég hef ákveðið að láta ljós mitt skína hér á þessum vettvangi í von um að einhver taki eftir því sem ég segi.

Það hlustar enginn á mig heima eða í vinnunni og því er þetta síðasti sénsinn á að fá athygli.

Ég er búinn að reyna að vera í félagsmálum, íþróttum, pólitík og Lions en allstaðar sama sagan, enginn hlustar. Samt finnst mér heilmikið vit í því sem ég hef fram að færa. Ég hef til dæmis töluvert vit á stjórnmálum, kynjafræðum, fótbolta, barnauppeldi, hagfræði, skák og flibbahnöppum frá því fyrir fyrra stríð. Svo hef ég líka verið að kynna mér útsaum og veit orðið ansi mikið um hann.

Þetta er fátt eitt af því sem mig langar að tjá mig um hér í bloggheimum.

Annars er ég að bíða eftir flugi til Köben og verð því að láta frekari skrif bíða þar til ég kem aftur eftir hálfan mánuð en þá er ég viss um að ég veit orðið allt um Danmörk og dönsk málefni. Gott ef ég verð ekki orðinn altalandi á gamla móðurmálinu


« Fyrri síða

Um bloggið

Hjalti Tómasson

Höfundur

Hjalti Tómasson
Hjalti Tómasson
Höfundur er þröngsýnn og gamaldags miðaldra kótelettukarl sem saknar daganna þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og enginn hafði vit á fótbolta nema Bjarni Fel.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 501

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband