Ef ég væri ríkur

Ef ég hefði verið ríkur væru hlutirnir í mínu lífi líklega svolítið öðruvísi en þeir eru.

Fyrir það fyrsta þá þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur af lánunum mínum og þeim sem voru svo hugrakkir að skrifa uppá hjá mér.

Ég gæti meira að segja lækkað siðferðisstandardinn dáldið og sagt; Ykkur var nær að skrifa uppá, sorrý.

Líklegra er þó að ég hefði bara fengið að leggja fram veð í lánunum sjálfum eða þá bankinn hefði bara litið framhjá slíkum smámunum enda gott traust milli mín og bankans og ég sennilega vildarviskiftavinur .

En þetta eru óþarfa pælingar, trúlega væri búið að afskrifa þetta alltsaman hvort eð er enda ekkert af mér að hafa, allir mínir peningar á nokkuð öruggum reikningum erlendis, það sá lögfræðideild bankans um. Skrítið samt að lögfræðideildin skuli sjá um slíkt ( leiðinlegir þessir fundir með skattalögfræðingnum þeirra, vá maður ) Jæja, það er þá í öllu falli löglegt.

Ég væri trúlega hættur í vinnunni þó það skifti svosem ekki neinu máli, maður hefur þá loksins tíma til að sinna sínum áhugamálum og svo þyrfti ég líklega að líta eftir þessum örfáu milljörðum sem ég á þarna úti.

Ég gæti líka klárað að innrétta nýja húsið í London ( svakalega er annars húsnæðisverð hátt hérna, Reykjavík hvað ha ) ? Að vísu hefði ég þokkalega nágranna, einhverja sendiherra og forstjóra og svoleiðis svo ekki væri nú talað um félagana að heiman.

Strákarnir frá Kaupþingi og Landsbankanum sem búa hérna úti hefðu ábyggilega verið mér hjálplegir að koma mér fyrir, bera með mér sófana og flatskjáina og svoleiðis. Jón Ásgeir hefði örugglega komið með kippu. Ég hefði þá boðið þeim eitthvað snarl að launum, kannski skotist með þá til Parísar eða Köben.

Kosturinn við að vera þarna í London er að maður væri laus við þetta þreytandi kvabb og látlausu kjaftasögur heima. Fólk getur verið svo blint og illa innrætt, maður hefði bara ekki trúað þessu uppá íslendinga.  Halló, er einhver öfundsjúkur ?

Það er gaman að láta sig dreyma en hinn nístandi veruleiki er sá að ég á ekkert, ég skulda bara og ég get ekki séð að ég muni fá neina sérmeðferð í bankanum mínum þó svo að ég hafi ekki tekið þátt neinu kaupæði með hlutabréf eða eignir.

Ég keypti hús fyrir nokkrum árum yfir mig og fjölskylduna mína og fór á hausinn, svo einfalt er það. Enginn keypti af mér á yfirverði eða lagði stórar upphæðir inn á minn reikning svo ég gæti haldið andlitinu útá við.

Ég ( eins og hundruð ef ekki þúsundir íslendinga ) þarf að standa ábyrgur gjörða minna og er svosem ekkert um það að segja.

Hitt þykir mér verra að verða líka að bæta á mig skuldum þeirra sem nú búa í rándýrum íbúðum erlendis og eru ekki menn til að koma heim og standa fyrir máli sínu.

En nú er mál að linni.

Sólin hækkar á lofti með hverjum deginum og innan skamms fer að hilla undir blessað vorið með blóm í haga, börnin eru heilsuhraust og sjálfur hef ég góðar hægðir og ræð hvenær þær koma.

Líklega þarf maður ekkert að vera að kvarta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vel mælt Hjalti - gaman að fá þig fyrir bloggvin.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.1.2009 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hjalti Tómasson

Höfundur

Hjalti Tómasson
Hjalti Tómasson
Höfundur er þröngsýnn og gamaldags miðaldra kótelettukarl sem saknar daganna þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og enginn hafði vit á fótbolta nema Bjarni Fel.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 556

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband