Stjórnmálin og við

Ég hef fulla samúð með ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún glímir við risavaxið verkefni og ekki er að sjá að stjórnarandstaðan ætli að létta undir með henni.

Ég er hóflega bjartsýnn á að Jóhönnu takist að leysa þau mál sem leysa þarf en hún fær allavega tækifæri hjá mér til að sýna hvað í henni býr og aðallega vegna þess að við eigum ekki annars úrkosta.

Í mér blundar þó ótti um að verkefnið sé þessu góða fólki ofviða. Vandamálið liggur í kerfinu sem við búum við ekki síður en fólkinu sjálfu. 

 Allir vita hvernig síðasta stjórn starfaði, ein uppi í fílabeinsturni, sambandslaus við kjósendur sína og aðeins í lauslegum tengslum við raunveruleikann sem ritstýrt var af öfgafullum frjálshyggjuöflum eins og skýrt er að koma í ljós þessa dagana.

Núverandi stjórn starfar með leyfi framsóknarflokksins og ekkert mál sem máli skiptir fer í gegn áður en hann er búinn að leggja blessun sína yfir það. Steingrímur bakkar og bakkar ekki með hvalveiðarnar, stjórnlagaþing eða ekki stjórnlagaþing og þá hlutverk, þess verður óskýrara með hverjum deginum, björgunarpakkinn fyrir heimilin er loðinn og kemur kannski eftir tvær vikur. Þessi staða er uppi fyrst og fremst vegna þess að ekkert má segja eða gera sem gæti styggt framsókn.

Alþingi er máttlaus stofnun sem ekki hefur starfað sjálfstætt í háa herrans tíð og ráðherrar og embættismenn hafa komist upp með að ganga í berhögg við vilja þingsins, til dæmis með því að neita að svara fyrirspurnum eða draga lappirnar í að framfylgja ákvörðunum þess. Menn hafa svo sínar aðferðir við að svæfa mál sem ekki er áhugi fyrir, vísa þeim til nefndar sem vísar þeim svo til annarrar nefndar, ef nefndirnar hafa þá fyrir því að hittast á annað borð. Hvað hafa t.d. hugmyndir um breytingarnar á stjórnarskránni farið í mörg ár milli nefnda alþingis ? Og hvað eru margar nefndir að störfum ? Mál eru samþykkt nánast án umræðu ( vegna þess að búið er að semja í bakherbergjum ) og á færibandi síðustu dagana fyrir þinglok. Mikill tími fer á þinginu við umræður um ágæti sitt og síns flokks og hrauna yfir aðra flokka. Og í kaupbæti gefa menn sér tíma til að tryggja sér góð eftirlaun, gjörningur sem tók dagspart að skella á en hefur tekið langann tima að ganga til baka og þá aðeins að hluta, vegna óljósra reglna um áunnin eignarétt, ef ég skil það rétt !

Og flokkarnir passa vel upp á sitt. Þeir hafa tryggt sér fjárframlög frá ríkinu enda hæg heimatökin. Á sama tím hefur gengið bölvanlega að fá í gegn upplýsingar um fjárreiður þeirra. 

Er hægt að ætlast til þess að almenningur beri virðingu fyrir þessari stofnun ? Er hægt að ætlast til að við berum virðingu fyrir stjórnmálamönnum almennt ?

Ég ætla ekki einusinni að byrja á hugsunum mínum um ábyrgð og heiðarleika......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Ég held að þeir hafi selt ábyrgð og heiðarleika - fyrir kauprétti í sama. Svo krassaði allt maður......

Heimir Tómasson, 14.2.2009 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hjalti Tómasson

Höfundur

Hjalti Tómasson
Hjalti Tómasson
Höfundur er þröngsýnn og gamaldags miðaldra kótelettukarl sem saknar daganna þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og enginn hafði vit á fótbolta nema Bjarni Fel.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 553

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband