Völd stjórnmálamanna

Hugsjónir stjórnmálamanna ( ef einhverjar eru ) virðast hafa tilhneygingu til að þynnast út og jafnvel hverfa þegar komið er í áhrifastöðu svo sem þingmennsku eða ráðherraembætti.

Þetta má glögglega sjá ef skoðaður er ferill stjórnmálamanna sem verið hafa í stjórnarandstöðu og komist til áhrifa og öfugt. Í andstöðu sinni eru menn opnir fyrir því að túlka hugsjónir sínar á allt annan hátt en þeir gera þegar þeir komast til valda og þurfa að fara taka ábyrgð á því hvað þeir segja eða gera.

Hvað veldur er ekki gott að segja en grunur minn er sá að innst í hugskoti flestra stjórnmálamanna sé aðalatriðið að ná völdum og halda þeim með öllum tiltækum ráðum, jafnvel þó það þýði að ganga þurfi á bak orða sinna. Almenningur er fljótur að gleyma eins og við vitum. Að menn þori eða vilji standa með hugsjónum sínum er liðin tíð og þá fer maður að velta fyrir sér hver tilgangurinn með stjórnmálunum er orðin.

Er hann sá að gera landi sínu og þjóð til góðs eða snýst hann um að komast í góða og þægilega innivinnu með öllum þeim bittlingum sem stjórnmálamenn sjálfir, í gegnum tíðina,  hafa komið á sér til handa ? Það er von menn spyrji.

En það er annar vinkill á þetta leikrit sem stjórnmálin eru sem maður veltir fyrir sér og hann er þessi:

Hver eru raunveruleg völd stjórnmálamanna á Íslandi þegar öllu er á botninn hvolft ?

Allir núverandi stjórnmálaflokkar hafa á stefnuskrá sinni að jafna lífskjör, standa vörð um og efla heilbrigðis og menntamál í landinu og í stuttu máli, gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hér sé samfélag þar sem allir geta lifað sáttir og hafi nóg til hnífs og skeiðar og þurfi ekki að líða skort í einu eða neinu. Vissulega vilja menn fara mismunandi leiðir að þessum markmiðum en þó er þetta það sem þeir allir boða. Þetta má allt sjá í stefnuskrám flokkanna og lesa í þeim bæklingum sem berast fyrir hverjar kosningar.

Hvernig hefur til tekist ?

Þeir flokkar sem teljast til hægri og vilja fara leið frelsis og athafna hafa með framferði sínu sett okkur svo kyrfilega á hausinn að frægt er orðið um heimsbyggð alla og flokkarnir til vinstri eru svo á góðri leið með að fullkomna glæpinn með aðgerðum sínum og eða aðgerðarleysi. Við bætist svo að græna hugsjónin gengur út á að engin verkefni eða framkvæmdir séu af hinu góða ef því tengjast útlendingar eða draumi þeirra um hreint og ósnert Ísland verði haggað.

Skýringin á þessari stöðu er að mínu viti ekki flókin eða langsótt.

Hugmyndafræðin hefur ekkert breyst þrátt fyrir breytt stjórnarmynstur. Það er þessvegna sem maður veltir fyrir sér raunverulegum völdum stjórnmálamanna.

Þessi hugmyndafræði sem allir flokkar á Íslandi virðast neyðast til að fylgja er í stuttu máli eftirfarandi og er í tvennu lagi:

A) Fjármagnseigendur, hvort heldur eru bankar eða einstaklingar mega ekki tapa fé. Það er náttúrulögmál sem ekki virðist hægt að yfirstíga frekar en gangur himintunglana. Nú er ég ekki að tala um aðila sem með forsjálni og dugnaði hafa verið að nurla saman til elliáranna heldur þá sem raunverulega ráða yfir fjármagninu. Trú stjórnvalda er sú að tapi þessir aðilar fé muni þau ósköp þýða að jörðin muni hætta að ganga braut sína, sólin hætta að skína og hér muni verða óbyggilegt um aldur og æfi. Engu máli skipti þó menn hafi tekið óverjandi áhættu í gróðavon sinni eða jafnvel brotið einhver lög í kapphlaupi sínu um aurana. Engu máli skiptir heldur hvort hér er um raunverulega peninga að ræða með verðmæti á bak við sig eða upphæðir sem skráðar eru með þykku bleki í bækur þessara höfðingja önnur en ákveðið er á virtum bókhaldsskrifstofum og fundin eru með endurbættum og þróuðum reikniskúnstum og eru í besta falli löglegar en óverjandi siðferðilega.

B) Almenningur skal borga og besta leiðin til þess er að sækja þessa aura gegnum skattakerfið. Skotheld aðferð sem lengi hefur verið stunduð með ágætum árangri víða um heim. Þetta skal gert á eins stuttum tíma og hægt er enda fellur fjármagnseigendum illa að vera aðskildir frá fé sínu of lengi. Ef það þýðir að almenningur njóti lakari lífskjara eða tapi beinlínis á því peningum eða eignum þá verður bara svo að vera að áliti stjórnmálamanna. Það þýðir allavega ekki annað en að fólk verður óánægt um tíma en síðan, eins og við vitum, er okkar háttur að setja bara undir okkur hausinn og halda áfram að streða. Þetta vita stjórnmálamenn.

Hvernig fellur þessi hugmyndafræði svo að loforðum stjórnmálamanna sem þeir kyrja svo fallega á mannamótum og þá helst rétt fyrir kosningar ?

Engan veginn að mínu viti og þó gefur maður sér að þeir sem gefi sig fram til starfa fyrir almenning ætli sér að standa við loforðin. Hverju á maður að trúa þegar þetta fólk kemur fram fyrir alþjóð og lofar öllu fögru ?

Efndirnar eru þannig að maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað ráði för þegar á hólminn er komið. Hvort láta stjórnmálamenn ráðast af ótta sínum við peningavaldið eða vilja sínum til að efna loforð sín.

Hvað á maður að halda þegar flokkar og stjórnmálamenn sem haldið hafa uppi ákveðnum málflutningi í þágu fólksins í landinu og vilja kenna sig við jöfnuð og mannréttindi ganga af trúnni nánast á einni nóttu og fara að ganga erinda aðila erlendra sem innlendra sem, að manni finnst, eiga ekkert inni hjá okkur og ættu með réttu að vera lokaðir bak við lás og slá eða í besta falli að hypja sig burt af landinu ( sem jú sumir hafa gert ) og hlífa okkur sem heima sitjum í súpunni við að líta þá augum.

Hver hefur raunverulega völdin á Íslandi ?

Maður bara spyr sig !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hjalti Tómasson

Höfundur

Hjalti Tómasson
Hjalti Tómasson
Höfundur er þröngsýnn og gamaldags miðaldra kótelettukarl sem saknar daganna þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og enginn hafði vit á fótbolta nema Bjarni Fel.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 500

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband