Smámunir

Nú sit ég heima með lungnabólgu og hef því haft nógan tíma til að ergja mig á hlutum sem ég hef þurft að láta sitja á hakanum vegna anna.

Eins og til dæmis því af hverju eru Reykvíkingar alltaf jafn hissa og óviðbúnir ef snjóar á þá ? Í Reykjavík fer allt í fár og fréttir af árekstrum og umferðartöfum þekja allar forsíður blaða og fréttatímar eru undirlagðir af hamfaralýsingum á veðurfarinu. Halló, við búum á ÍS-landi ef einhver skildi hafa gleymt því. Eða eru þetta kannski bara fjölmiðlarnir ?

Og hvernig stendur á því að Jóhanna og Steingrímur geta aldrei brosað þega þau koma í viðtöl frammi fyrir alþjóð ? Maður verður þokkalega þreyttur af því að horfa á þessi tvö andlit dómsdags þegar verið er að reyna kreista út úr þeim einhver svör um ástandið. Það er helst manni stökkvi bros ef þau tjá sig um skjaldborg heimilanna. Þar er einn besti brandari síðustu ára og hann virkar enn, allavega fyrir einfaldar sálir eins og mig.

Og annað. Icesave. Ég ætla ekki einu sinni að byrja á Icesave.

Nema að sá sem fann upp nafnið á þessu fyndnasta öfugmæli síðari tíma ætti tvímælalaust að fá listamannalaun næstu tíu til fimmtán árin. Icesave ? Save who ? Að auki tel ég að það ætti að veita honum Fálkaorðuna, ekki einu sinni, heldur tvisvar. Fyrst fyrir að finna upp nafnið á einhverju mesta glæpaspili Íslandssögunnar og svo aftur fyrir að veita öllu þessu fólki vinnu við að finna leið út úr ógöngunum og okkur hinum leðurhausunum til að hneykslast yfir. Ef þetta er ekki atvinnusköpun þá veit ég ekki hvað. Hvað værum við annars að gera nema naga á okkur táneglurnar og bíða eftir að heimskreppan jafnaði sig svo við gætum haldið áfram að keppast við að vera stórust í heimi.

Og hvað er eiginlega að gerast í stjórnmálalífinu hér á landi. Við eyðum heilu ári í að semja við sjálf okkur um eitthvað sem heitir ....... hvað heitir það nú aftur ? Sameitthvað, hvað var það nú aftur sam.... samruni, nei samstæða, nei hvað var það nú ? Eitthvað um að menn standi saman ... já, nú kom það. Samstaða, alveg rétt. Bíddu, stoppa hér. Vorum við ekki að tala um stjórnmálamenn. Að tala um samstöðu ( og meina það ) þar á bæ er eins og að missa eitthvað óheppilegt út úr sér í erfidrykkjunni henna ömmu, eins og " muniði hvað hún var eiturhress í afmælinu hjá Palla bróður, kertið og standlamp......... hmm " Allir verða ferlega vandræðalegir og svo fara menn að tala eitthvað annað og menn keppast við að yfirgnæfa hvern annan í von um að enginn fari nú að rifja upp fleiri sögur af gleðik.. pinnanum ömmu. Svo mæta þessir menn í viðtal í sjónvarp eða Silfur Egils og tala út á við um nauðsyn þess að standa saman.

Og talandi um stjórnmálamenn. Nú er tími prófkjöra yfirstandandi og bæklingarnir hrynja inn um lúguna hver öðrum kostulegri. Þessir bæklingar eru bara til eins nothæfir. Það er að nota þá sem uppeldis og afþreyingu fyrir börnin. Þá er upplagt að lesa ef rigning er úti og börnin eitthvað vansæl. Maður tekur þá fram bæklinga tveggja síðustu prófkjöra, les upp úr þeim eldri og ber síðan saman við þann yngri og biður börnin að finna mismunin, svona svipað og myndirnar í Æskunni í gamla daga. Ef krógarnir eru með uppsteyt þá er reynandi að rífa fram eins og einn bækling ( og til að taka af allann vafa þá er sama í hvaða lit hann er ) reka þetta framan í börnin og öskra " Vilt þú verða eins og þessi þegar þú verður stór ?" Ég verð þó að segja að blái bæklingurinn úr Kópavogi hefur samt virkað best á mínu heimili. Þar er mynd sem alltaf virkar, ég nefni engin nöfn en hann lenti í þriðja sæti minnir mig.

Eitt enn. Hvers vegna er ekki hægt að sýna Leiðarljós á kvöldin svo vinnandi fólk fái tækifæri til að fylgjast með þessum spennandi og uppbyggjandi þáttum. Eru þeir bara fyrir konur og aðra öryrkja ?Þennan tíma í veikindum mínum hef ég gert mér grein fyrir að þetta er eitthvað besta sjónvarpsefni sem landsmönnum hefur verið boðið upp á. Þarna fer saman góður söguþráður ( kannski örlítið langdreginn ), spenna, frábær leikur, í stuttu máli allt það sem prýða má einn sjónvarpsþátt. Verst þykir mér að hafa ekki getað fylgst með frá upphafi en enn einn af kostum þessa þáttar er þó að ekki skiftir meginmáli hvort þú byrjar að fylgjast með fyrsta þætti eða fimmhundruðogtuttugasta þætti, þeir eru allir jafn góðir og grípa mann heljartökum.  Mun Dinah einhverntíma losna við sárabindin af andlitinu ? Hvar er Annie Dutton ? Er hún Teri ? Er Teri kannski Annie ? Mun Josh komast að því hver hefur verið að eitra fyrir hann í 42 þætti ? Svona eru þessir þættir, skilja mann gjarnan eftir með fleiri spurningar en svör, svona eins konan manns.

Hvað um það, búinn að fá útrás fyrir tuðið í dag, nú ætla ég að koma mér vel fyrir í sófan og sjá hvað er í sjónvarpinu. Kannski dett ég niður á eitthvað gott og fræðandi sem ekkert hefur að gera með Icesave, bankahrunið eða prófkjör.

Kveðja

HT


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  (netauga)

Takk fyrir þetta Hjalti, alveg bráðskemmtileg lesning  farðu varlega með þig og heilsist þér sem best.

(netauga), 9.3.2010 kl. 19:11

2 Smámynd: Heimir Tómasson

Góður :-) Annars var ég búinn að gleyma þessu með standlampann og kertið.

Heimir Tómasson, 10.3.2010 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hjalti Tómasson

Höfundur

Hjalti Tómasson
Hjalti Tómasson
Höfundur er þröngsýnn og gamaldags miðaldra kótelettukarl sem saknar daganna þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og enginn hafði vit á fótbolta nema Bjarni Fel.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband